Friday, June 06, 2003

Tungan
Stefán Karlsson


Greinin er yfirgripsmikil og fróðleg umfjöllun um helstu þætti íslenskrar málsögu. Mér tekst ekki að fjalla um allt það sem fram kemur í greininni en dreg fram þau atriði sem mér þóttu athyglisverðust. Meðal þess helsta sem Stefán fjallar um eru breytingar á hljóðkerfi málsins frá elstu íslensku, mun á beygingum fornmálsins og nútímamálsins, um orðaforða og hvað það er sem hefur haft áhrif á hann og um stafsetningu.

Íslenskan er af stofni germanskra mála sem flokkast í norðugermönsk-, austurgermönsk- og vesturgermönsk mál. Íslenskan og sömuleiðis færeyska, norska, danska og sænska eru af stofni norðurgermanskra mála og íslenskan vesturnnorrænt mál eins og norska. Þó má greina í íslensku nokkur orð af keltneskum uppruna og má þar nefna mannanöfnin Kjartan og Njáll. Áhrifamestu breytingarnar sem orðið höfðu á norrænu máli þegar Ísland fór að byggjast voru stóra brottfall sem var brottfall stuttra sérhljóða í áherslulítilli stöðu og hljóðvörp og klofning. Þessar breytingar voru ekki þær sömu á norræna málsvæðinu og þá fyrst fer málið að greinast í þau norrænu mál sem síðar hafa þróast í þau Norðulandamál sem við þekkjum í dag, utan finnsku af sjálfsögðu. Stefán segir norskuna hafa breyst meira en íslensku og þá sérstaklega á 13. og 14. öld. Hljóðbreytingar urðu í okkar máli sem ekki áttu sér hliðstæður í norsku en helsti munurinn er sá að beygingarkerfi norskunnar breytist og einfaldast mikið.

Mjög miklar breytingar verða á framburði málsins. Sérhljóðum fækkar mjög mikið eða úr 27, auk au, og þeim hefur fækkað í 16, auk au, ei og ey um 1200 og þeim heldur áfram að fækka. Maður verður þó að átta sig á því að slíkar málbreytingar eru lengi að ganga yfir og ætla má að það sé enn að gerast í dag. Sem dæmi um hljóðbreytingu sem verður nær okkur í tíma en var að mestu útrýmt má nefna flámælið sem mest var áberandi á fyrri hluta 20. aldar. Ef sú breyting hefði náð fótfestu hefði sérhljóðum fækkað enn því flámæltir gera lítinn greinarmun á i og e eða u og ö. Í umfjöllun minni um reykvískuna kom fram að nýtt flámæli væri jafnvel að greinast í málinu og því mætti segja að þær breytingar sem kæfðar eru í fæðingu skjóti upp kollinum aftur og nái jafnvel fram að ganga fyrst meira umburðarlyndi er ríkjandi nú gagnvart breytingum í málinu en áður. Breytingar sem hafa orðið á samhljóðakerfinu eru stöðubundnar en ná ekki til hljóðkerfisins eins og sérhljóðabreytingarnar. Þ.e.a.s. staða hljóðsins í talfærunum breytist eða færist til og þá hafa sérhljóðarnir og staða þeirra með samhljóðinu töluverð áhrif. Um 1300 verður sú breyting að á undan ng og nk voru stutt sérhljóð sem féllu saman við samsvarandi löng hljóð t.d. ing verður íng, yng verður ýng, ung verður úng. Önnur urðu tvíhljóð eins og eng verður eing, öng sem verður aung. Enn í dag heyrum við einhljóðaframburð sem lengi var staðbundinn á Vestfjörðum. Stefán segir íslenska samhljóðakerfið vera að mestu það sama til forna og í dag en breytinganna sé að gæta í framburði hljóðanna í ákveðnu hljóðaumhverfi. Helstu breytingar urðu þær að önghljóð sem myndast við að loft fer um þrengsli einhvers staðar í munninum breyttust í samsvarandi lokhljóð og einnig urðu rödduð samhljóð órödduð eins og í norðlensku.

Sameiginlegt fornnorrænt beygingarkerfi er varðveitt í öllum meginatriðum í íslensku og í færeysku hefur það varðveist að miklu leyti. Í öðrum málum hefur það einfaldast mjög mikið. Þetta styður kenninguna um áhrif einangrunar landsins og fjarlægð frá öðrum tungumálum. Færeyingar eru t.d. nær öðrum löndum en við og hafa lengi verið undir stjórn Dana svo áhrifin frá öðrum tungumálum eru líklegast meiri þar. Mesta breytingin á nafnorðabeygingum varð á karlkynsorðum sem höfðu endinguna –ir í nf. et. eins og hellir og mælir. R komst smám saman inn í beyginguna á 15., 16. og 17. öld og urðu þau þá í ft. hellirar, hellrar í stað hellar og hella. Gömlu myndirnar voru svo endurvaktar á 19. öld og náðu aftur fótfestu með aukinni skólagöngu. Mesta breytingin sem orðið hefur á formkerfi íslenskunnar er að tvítala persónufornafna og eignarfornafna í 1. og 2. persónu fellur út og í dag notum við eingögnu eintölu og fleirtölu. Tvítalan voru myndir orðanna eins og vit og þit sem síðar urðu við og þið og okkarr og ykkarr. Samsvarandi þessu voru fleirtölumyndirnar vér og ér síðar þér og várr síðar vor og yðarr notaðar um eina persónu í virðingarskyni. Mest ber á aðgreiningu milli tvítölu og fleirtölu frá 17. öld og fram á 18. öld. Tvítalan var þá notuð um það sem tvennt var eða fleira en fleirtalan að mestu í þéringum og embættisnafni. Breytingar hafa einkum orðið á sagnmyndum sterkra sagna og fáeinar þeirra fengu veika beygingu að einhverju eða öllu leyti t.d. hrinda (hratt), bjarga (barg) og ríta (reit).

Mér fannst skemmtilegast að lesa um orðaforða íslenskunnar og hvað hefur haft áhrif á hann. Í upphafi var orðaforðinn að mestu norrænn en nokkur keltnesk orð voru í málinu. Fáein tökurð hafa komið inn í málið með víkingum sem ferðuðust til fjarlægari landa eins og torg úr rússnesku og fíll úr persnesku. Kristinboð og kristni á Íslandi juku til muna við íslenskan orðaforða. Þau orð eru sum komin úr latínu en önnur úr grísku. Í dag verða flest tökuorð og nýyrði til vegna orða sem komin eru úr ensku, en auðvitað eru mörg orð í ensku ættuð úr latínu. Kirkjumálið var þó fyrst runnið undan rótum norrænna tungumála. Íslendingar brugðust vel við flóðbylgju nýrra orða sem kom inn í málið og fundu innlendum orðum sem til voru í málinu nýja merkingu. Þetta er hliðstætt því sem nýyrðasmíðin gengur út á í dag en mörg gömul orð fá þar nýtt hlutverk og nýja merkingu. Önnur erlend áhrif urðu vegna bókmennta og ýmissa vörutegunda sem flutt voru inn í landið. Má nefna orð eins og kurteis og kurteisi sem komin eru úr kappa- og riddarasögum. Óbein áhrif urðu úr þýsku fyrir áhrif hennar í öðrum Norðurlandamálum en þýskir kaupmenn silgdu lítið fyrr en á 15. öld. Samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir voru langmest við Danmörku og því gætti danskra áhrifa í málinu mikið. Danski málfræðingurinn Rask hafði miklar áhyggjur áhrifum dönskunnar á íslenskuna í byrjun 19. aldar og var ekki í vafa um að varla nokkur mundi skilja íslenskuna í landinu öllu að um 200 árum liðnum. Það er að miklu leyti Rask að þakka að menn áttuðu sig og réðust í umfangsmikla málhreinsun á 19. og 20. öld og áhrifanna gætir enn í dag. Fleira hefur átt þátt í því að íslenskan var varðveitt og má þar nefna rímna- og sagnahefð. Einnig voru breytingar á búskaparháttum litlar og orðaforðinn því lengi sá sami. Íslendingasögur og konungasögur voru lesnar úr gömlum handritum og voru einnig mikið lesnar eftir að þær urðu algengar á prenti á 19. öld. Menn fara snemma að benda á sérstöðu íslenskrar tungu og vara menn við erlendum áhrifum og má þar nefna Arngrím lærða sem fjallar um þetta í riti sínu um Ísland, sem reyndar birtist á latínu árið 1609. Áherslan á vandað mál er ríkjandi hjá Hallgrími Péturssyni og Jóni biskupi Vídalín á 17. öld. Á 18. öld fara menn að skrifa meira á móðurmálinu og þýða bókmenntir úr örðum tungumálum. Síðar eða á fyrri hluta 19. aldar benda menn eins og Sveinbjörn Egilsson og seinna Konráð Gíslason og Jónas Hallgrímsson á að gott íslenskt mál lifði ekki eingöngu í ritmáli heldur einnig í talmáli. Þarna gætir í raun fyrst þeirrar málstefnu sem æ síðan hefur verið fylgt á Íslandi.

Ókunnur höfundur fyrstu málfræðiritgerðarinnar á öndverðri ritöld reyndi að koma reglu á íslenska stafsetningu og voru tillögur hans í mjög góðu samræmi við íslenskan framburð. Reglurnar náðu þó lítilli fótfestu en eru mikilvægar heimildir um málið eins og það var á þeim tíma. Skrif manna voru með ólíkum hætti og næstu aldir einkennast þau af óreglu. Nýtt skeið hefst svo með prentun bóka um miðja 16. öld. Það er svo á 19. öld sem nokkur regla kemst á stafsetningu. Á 20. öld urðu breytingar á stafsetningu eins og brottfall z og menn spyrja sig hvenær i og í verður ritað í stað y og ý. Við getum þó vel við unað hér á Íslandi þar sem mál okkar er nokkuð hljóðrétt í framburði sem auðveldar stafsetningu mikið.

Ég tel okkur hafa góða ástæðu til að vera stollt af tungu okkar sem má segja að hafi haldist lítið óbreytt miðað við tungur annarra þjóða gegnum aldrirnar. Ég verð að segja að það er aðdáunarvert að svo fámennri þjóð hafi tekist að varðveita málið með þeim árangri sem við sjáum þegar farið er yfir sögu þess. En breytingar málsins verða hraðari um leið og hraði samfélagsins hefur aukist og samskipti við aðrar þjóðir einnig. Ísland er orðin fjölmenningarleg þjóð og án efa hefur það líka áhrif á breytingar málsins í framtíðinni. Þessum breytingum verðum við þó að taka með ró og spekt og átta okkur á því að tunga okkar er í stöðugri þróun sem ekki þarf endilega að vera neikvætt.


Monday, June 02, 2003

Þágufallssýki
Ásta Svavarsdóttir

Grein Ástu fjallar í megindráttum um tvennt. Fyrri hluti greinarinnar er lauslegt yfirlit um breytingar á fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegra setninga og þá einkum „þágufallssýki “. Í seinni hluta greinarinnar segir Ásta frá niðurstöðum könnunnar sem hún gerði veturinn 1980-1981 meðal 11 ára barna á fallnotkun með ópersónulegum sögnum.

Greinin er mjög vel skrifuð og fróðleg. Ég lærði margt við rýni mína í hana um rætur þágufallssýkinnar og þá ýmislegt sem ég hafði ekki áttað mig á áður.

Ég ætla að segja lauslega frá niðurstöðum í könnun Ástu en langar meira að deila með ykkur efni greinarinnar um fallnotkun orða í frumlagssæti ópersónulegra setninga. Umfjöllun Ástu leiddi mig í sannleikann um hvers vegna fólk ruglar notkun frumlags með ópersónulegu sögnunum en það skiptir verulegu máli að átta sig á þeim þáttum fyrir þá sem vilja skilja meinið til hlýtar. Ég ætla ekki að skilgreina öll hugtök og reglur sem koma fram í grein Ástu því það yrði allt of langt mál hér heldur glöggva okkur á þeim atriðum sem ég tel skipta mestu máli.

Þegar setning er ópersónuleg er það vegna þess að sögnin lagar sig ekki að persónu og tölu nafnliðarins sem stendur í frumlagsstöðu jafnvel þótt hún sé í persónuhætti. Þetta gerist þegar nafnliðurinn stendur í aukafalli, þolfalli eða þágufalli. Ásta nefnir dæmi um persónulegar (1) - og ópersónulegar (2) setningar til samanburðar;
(1) Ég hitti Benjamín á ballinu.
(2) Mér þótti gaman á ballinu.
Í persónulegum setningum táknar frumlagið frekar geranda en þolanda (eða reynanda eins og Höskuldur Þráinsson kallar hugtakið) en því er öfugt farið í ópersónulegum setningum;
Pési rak strákana á land.
Hvalinn rak á land.
Það sést einnig á þessum dæmum að merking sagnarinnar að reka er ekki sú sama í báðum setningum.

En víkjum þá að rótum þágufallssýkinnar. Þolfallið í frumlagssæti ópersónulegra setninga hefur tilhneygingu til að víkja fyrir þágufalli. Þannig að í stað þess að segja t.d. mig langar segja menn mér langar. Sögnin tekur hér engum breytingum þótt frumlagið breytist úr þolfalli í þágufall. Ég verð að geta þess, þó ég fjalli ekki frekar um það hér, að þolfallið hefur einnig tilhneyginu til að víkja fyrir nefnifalli í ópersónulegum setningum en sú breyting er svolítið frábrugðin þágufallsbreytingunni. Þegar sú breyting verður fær nafnliðurinn einkenni frumlags þannig að sögnin lagar sig að honum í persónu og tölu og setningin verður persónuleg. Ásta fullyrðir að þessi tilhneyging sé frekar óalgeng í daglegu tali. Upprunalega taka sumar ópersónulegar sagnir með sér frumlag í þolfalli en aðrar í þágufalli. Sagnir sem taka með sér þágufall eru miklu algengari í málinu en þær sem taka með sér þolfall. Það virðist því vera um einhverskonar samræmingu á fallnotknun frumlagsins að ræða þegar litið er á málbreytinguna sem hér hefur verið kölluð þágufallssýki. Einnig má segja að þágufallssýkin sé tilhneyging til einföldunar í málkerfinu. Allar þær sagnir sem um ræðir eru líkar að merkingu og tákna flestar eins konar hugar- eða líkamsástand. Það má því segja að þær séu heildstæður merkingaflokkur og því verði tilhneyging til að skipa þeim einnig saman í formlegan flokk. Einnig hættir fólki til að nota sagnir eins og hlakka og kvíða sem ópersónulegar sagnir þó að upprunalega séu þær persónulegar.

Ég tók eftir því í skrifum Ástu að hún notar sömu sjúkdómsheitin í umfjöllun sinni um málbreytingar eins og Gísli Pálsson gagnrýndi í grein sinni Vont mál vond málfræði. Hún talar jafnan um þágufallssýki og nefnir einnig áráttu um sama fyrirbæri. Slík orðanotkun stingur óneitanlega í augun þegar maður er eins og ég undir áhrifum af skrifum Gísla og veltandi vöngum yfir málbreytingum og kennslu þeim tengdum. Ég verð að segja, áður en ég held áfram, að ég er alls ekki sátt við slíka neikvæða orðanotkun en nota orðið þágufallssýki hér til að rugla engan rýminu.

Eins og Ásta bendir á í grein sinni er þágufallssýkin líklega komin til að vera jafnvel þótt amast sé við henni í skólum og opinberlega sé hún álitin röng. Hún er einnig áhugaverð því hún tengist sögnum sem eru mjög algengar í málinu t.d. vanta, langa, dreyma o.s.frv. Ásta nefnir einnig þá gagnrýni sem málverndasinnar hafa hlotið fyrir umfjöllun sína um málbreytinguna t.d. tengsl hennar og félagslegrar stöðu í þjóðfélaginu. Mér þótti athyglisvert að lesa um sjónarmið B. Chr. Jacobsen (1980) en hann telur að þolfall með ópersónulegum sögnum vera tillært og sé í andstöðu við málkerfið. Af þeim sökum mætti telja eðlilegt að slík málbreyting nái fram að ganga. Hann bendir einnig á að baráttan gegn þágufallssýkinni gæti leitt til þess að þolfallssagnirnar dæju út í málinu eða hún gæti valdið klofningi í málnotknun í hversdagsmál og opinbert mál. Fólk notaði þannig þolfall með ópersónulegum sögnum við sérstök tækifæri en í daglegu tali væri þágufallið notað.

Eins og fyrr sagði gerði Ásta könnun á fallnotkun með ópersónulegum sögnum. Hún reyndi að leita svara við spurningum eins og hversu algeng þágufallssýkin væri, hvort hún fylgdi einhverjum sérstökum reglum, hvort hún fylgdi ákveðnum sögnum, hvort munur væri á fallnotknu eftir því hvort frumlagið væri 1. eða 3. persónu fornafn og hvort einhverjir fylgikvillar fylgdu þágufallssýkinni.

Niðurstöður Ástu leiddu í ljós að þágufallssýkin er nokkuð algeng. Þátttakendur í könnuninni rugluðu nokkuð fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegu sagnanna og algengara var að notað væri þágufall með 3. persónu en 1. persónu. Fólk virðist vanda sig með 1. persónuna og segja t.d. mig langar en ruglar svo 3. persónunni með því að segja karlinum langar í stað karlinn langar. Lítil tilhneyging virtist til að rugla saman persónulegum- og ópersónulegum sögnum. Samkæmt niðurstöðum er þágufallssýkin ekki svæðisbundin heldur finnst hún á öllum þeim landssvæðum sem kannað var á. Í ljós kom að þeim sem gengur illa í námi hættir frekar til að rugla frumlagsfallinu heldur en þeim sem gengur vel í námi og af því mætti leiða að þolfallsmyndunin með ópersónulegu sögnunum sé tillærð eins og B. Chr. Jacobsen hélt fram.

Af þessari umræðu má ætla að vita vonlaust sé að amast við þágufallssýkinni og spurningin ekki hvort heldur hvenær sú málbreyting verður viðurkennd. Það væri gaman að heyra hvernig þessi umræða er á unglingastigi í grunnskólum meðal kennara og nemenda og hvernig kennarar taka á slíkri málnotkun.