Thursday, May 29, 2003

Stutt saga úr grunnskóla.....

Ég verð að segja ykkur frá dæmi um málbreytingu sem ég sá í skólanum sem ég kenni í nú í vikunni. Uppi á vegg á kennarastofunni hangir auglýsing um óvissuferð starfsfólks skólans og þar stendur meðal annars „það verður skemmt sér konunglega”. Mér varð hugsað til umræðna okkar í námskeiðinu um nýju þolmyndina. Okkur fannst þetta öllum óþægileg málnotkun og ég er viss um að ekkert okkar talar svona. Þau sem útbjuggu auglýsinguna sem hékk uppi í skólanum eru öll kennarar við skólann á okkar aldri og eldri svo af þessu dæmi má greinilega sjá að nýja þolmyndin er komin til að vera og fyrirfinnst meðal ungra kennara í dag. Þá velti ég því enn og aftur fyrir mér, þar sem mér finnst þetta ekki gott mál og vísa í það sem ég skrifaði um grein Gísla Pálssonar, hvernig maður eigi að taka á þessu máli í kennslu. Ég kem til með að kenna 1. bekk í haust og hlakka mikið til. Það verður eflaust fróðlegt að heyra hvernig 6 ára nemendur nota málið og mig langar að vinna markvisst að málnotkun með þeim, kenna þeim ný orð sem þau hafa ekki lært og æfa þau í að nota þau. Ég hef sagt ykkur frá kennsluaðferð sem er orðin þekkt hér við skólann og er kölluð Perluvinafélagið. Einn gamalreyndur kennari við skólann sem heitir Sólveig Sveinsdóttir á þessa hugmynd og margir hafa tekið hana upp hér í yngri bekkjunum og unnið með hana. Perluvinafélagið eru nemendurnir í bekknum sem ætla að vera perluvinir. Í hverri viku leggur kennarinn inn nýtt orð til að nota í perluvinahópnum. Orðið lýsir því hvernig perluvinirnir vilja vera eða haga sér gagnvart hver öðrum t.d. orð eins og tillitssamur, hughraustur, kjarkaður, vingjarnlegur ofl. Kennarinn ræðir við nemendur um hvað orðið merkir og svo búa þau sameiginlega til dæmi um hvernig þau geta notað orðið í samskiptum sín á milli. Orðið er sett í perluvinaorðabókina sem hangir uppi á vegg og nemendur hafa myndskreytt. Nemendur nota orðin til að lýsa hvert öðru og tilfinningum í garð hvers annars. Kennarar sem nota þessa aðferð hafa séð að nemendur tileinka sér orðaforðann og nota orðin í daglegu tali. Sjö ára nemandi kom til kennara síns eftir frímínútur og sagði „ég var mjög kjarkaður úti í dag, ég fór til kennara og sagði honum að strákur væri að stríða mér” Markmiðið með þessari kennslu er eins og þið sjáið að auðga bekkjarandann en um leið að kenna nemendum ný orð og æfa þau í að nota þau. Ég hef hugsað mér að nota þessa hugmynd með 1. bekknum mínum í haust en langar að útfæra hana svolítið. Það verður verkefni í sumar en ég ætla að nota tvær síðustu vikurnar af júní til að hefja undirbúning fyrir kennslu næsta haust.

Hvernig væri ef við héldum áfram blogginu eftir að við verðum öll komin út í grunnskólana nú í haust og segjum sögur úr skólalífinu? Það væri án efa mjög gagnleg umræða og gaman að deila með ykkur pælingum um málnotknum og málfræði í kennslu og fá að heyra hvað þið verðið að fást við.

Sunday, May 25, 2003

Vont mál og vond málfræði
Gisli Pálsson


Grein Gísla er mjög beitt og harðorð í garð málvísindamanna sem aðhyllast málveirufræði eins og hann kallar málfræðina og ég mun koma betur að hér á eftir. Maður getur þó ekki annað en tekið undir með Gísla og verið sammála honum þegar maður les hrokafullar yfirlýsingar málverndunarsinna um alþýðuna og hvernig hún fer með málið eins og það kemur þeim fyrir sjónir en Gísli vitnar til nokkurra þeirra í grein sinni.

Gísli notar hugtakið ‘málveirufræði’ yfir málvísindi til að leggja áherslu á skoðun sína á og störfum og skrifum málfræðinga sem hann lýsir í grein sinni. Hann segir réttast að kallar málfræðingana málveirufræðinga þar sem þeir nefna gjarnan breytingar á málinu plágur eða sýkingar og má þar nefna þágufallssýki og hljóðvillu. Málveirufræðingarnir ganga reyndar svo langt að kalla vont mál og málfarsbreytingar til marks um almennan sóðaskap. Gísli vill meina að viðhorf málveirufæðinganna til þróunar íslenskunnar sé byggt á fölskum og beinlínis röngum forsendum og að skoðanir þeirra einkennist af þröngsýni og vanþekkingu á áhrifum félagsfræðilegra þátta á málfarsþróun. Hann vill meina að afstaða málveirufræðinganna sé pólitísk og gengur svo langt að fullyrða að þeir hafi fengið áhrifastöður í þjóðfélaginu og að stofnanir á borð við Háskóla Íslands hafi verið settar á laggirnar að launum fyrir ötullt málhreinsunarstarf og stuðning við sjáfstæðisbaráttu Íslendinga. Ég verð nú reyndar að segja að sumar fullyrðingar Gísla jaðra við að vera gífuryrði og í anda málveirufræðinganna en tel hann þó hafa mikið til síns máls.

Orð málverndunarsinna hafa gegnum tíðina eins og Gísli vitnar til verið mjög hrokafull í garð þeirra sem ekki tala rétt mál. Með rökleysum sínum hafa þeir gert litið úr alþýðunni með fullyrðingum um bein tengsl greindar og málvillna eða það að tala ekki rétt mál eigi sér skýringar eins og að ‘eiga ekki nógu góðan pabba og mömmu’, vera ‘götustrákur’ eða tilheyra ‘skrílnum’. Það má segja að þeir álíti slíka umfjöllun til þess fallna að sannfæra menn um að forðast veiruna eða sýkina en ég er hrædd um að það hafi ekki haft tilskilin áhrif eins og reyndar Gísli bendir á. Gísli segir aðferðir og aðför málveirufræðinganna vera tilraunir til að endurvekja gamla tíma og snúa breytingarferlinu við. Það má líkja því við áhrif leiðréttinga á málfar barna og unglinga. Fræðimenn eru almennt sammála um að það að leiðrétta börn beint þegar þau tala ekki rétt beri ekki þann árangur úr býtum að þau fari að tala rétt heldur sé betra ráð að endurtaka það sem þau sögðu og segja það sem rangt var sagt rétt. Þessi sjónarmið að álíta vont málfar til marks um lágt greindarstig eða innantómt menningarlíf kallar Gísli hörgulkenningu. Réttara væri að kanna félagslegar orsakir þeirra málbreytinga sem eiga sér stað og leita skýringa og leiða til úrbóta reistum á þeim rökum frekar en hrokafullum fullyrðingum.

Gísli bendir á að líklegt sé að stéttarþróun á Íslandi undanfarna áratugi hafi sín áhrif á málþróun. Breytingar eins og aukin þéttbýlismyndun og breyttir þjóðfélags- og atvinnuhættir hafi einnig tilskilin áhrif. Það væri réttast eins og Gísli bendir á að rannsaka götumálið í stað þess að úthrópa það eins og málveirufræðingarnir virðast hafa gert.

Málbreytingar eru mjög áhugavert umfjöllunarefni og ég gæti trúað því að hlutlaus umfjöllun kennara um þær í kennslu geti fengið nemendur til að skoða málfar sitt og félaga sinna í þeim tilgangi að kanna hvað sé tækt eða ótækt í þeim efnum. Manni verður einnig spurn eftir lestur greinarinnar hvað sé málbreyting og hvað málvilla? Trúlega er besta leiðin til að svara þessu að gera athugun á hverju tilfelli fyrir sig, fara yfir beygingu og setningarlega stöðu og bera saman við þær breytingar sem orðið hafa á þróun tungumálsins. Gísli tekur dæmi um þágufallssýkina og bendir á að þar virðist tilhneygingin vera sú að ópersónulegar sagnir fara að haga sér eins og persónulegar t.d. mér hlakkar til í stað ég hlakka til og málin báru á góma í stað málin bar á góma. Ég verð að viðurkenna sem verðandi kennari að þetta verður ekki auðvelt verk. Ég veit heldur ekki alveg hvorn pólinn ég á að taka í hæðina því ég er alinn upp af málverndunarsinnum og var statt og stöðugt leiðrétt ef ég talaði ekki rétt. Ég var og er haldin málótta og ofvöndun við ákveðnar aðstæður og hef verið þeirrar skoðunar að sem kennara beri mér að tala rétt og gott mál og vera nemendum mínum góð fyrirmynd. En þá dettur mér í hug; fyrirmynd hvers? Málótta og ofvöndunar? Er ég þá í raun málveirusinni sem aðhyllist hörgulkenninguna? Ég verð að viðurkenna að ég stend á krossgötum og þarf án efa kæru félagar stuðning ykkar í framtíðinni þegar ég stend frammi fyrir nemendum, foreldrum og samkennurum og fullyrði að þágufallssýki sé málbreyting sem við verðum að sætta okkur við og viðurkenna sem breytingu á tungumáli okkar.
Um ytri aðstæður íslenskrar málþróunar
Helgi Guðmundsson


Sú fullyrðing að íslenskan hafi breyst lítið frá fornu fari til okkar daga kann að hljóma röng þegar maður hugsar til þess að hafa rýnt sveittur í forna texta í bókmenntaáföngum í menntaskóla með orðskýringar og orðabækur sér til halds og trausts. Hver man ekki eftir því sem unglingur að hafa setið með Hávamál og Eddukvæði og þýtt þá texta yfir á ‘nútímaíslensku’ áður en maður fékk skilið hvað í þeim stóð? Eftir að hafa fengið þá skólun og að auki þroskast svolítið er þetta auðveldara en þó get ég ekki sagt að ég lesi forna texta án mikillar fyrirhafnar, langt því frá. Samanborið við aðrar þjóðir og skyld mál eins og norsku og ensku þá er það raunin að íslenskan hefur breyst lítið frá fornmálinu. Meiri munur er á fornnorsku og nútímanorsku og fornensku og nútímaensku en forníslensku og nútímaíslensku.

Ákveðin stöðnun og íhaldssemi virðist hafa einkennt íslenskuna og þróun hennar og má t.a.m. nefna að litill mállýskumunur er eftir landshlutum. Hvað mállýskur varðar virðist verða einhvers konar hringrás og aðlögun um allt land. Hvað veldur þessu er óljóst en nærtækustu skýringar sem koma upp í kollinum eru lega landsins og fjarlægð frá öðrum tungumálum. Hvað varðar breytingar nær okkur í tíma er það t.d. ekki fyrr en á 9. áratug síðustu aldar sem útvarps- og sjónvarpsstöðvum fjölgar úr einni á hvorum miðli fyrir sig. Það má þó ekki gleyma erlendum áhrifum eins og Kanasjónvarpinu og hernámsárunum en ég get ekkert fullyrt um þau áhrif hér. Þjóðerniskenndin var ríkjandi lengi og eitt helsta haldreipi manna í rökfærslum sínum fyrir sjálfstæði Íslendinga var tungumálið og sérstaða þess. Málhreinsun var mikil og það tókst að sannfæra menn um að mun merkilegra væri að tala og skrifa á sannri íslensku heldur en að sletta á dönsku.

En nú vík ég aftur að grein Helga.
Athuga verður að heimildir skortir til að hægt sé að fullyrða nokkuð um þróun málsins á landnámsárum. Þó er talið að á 8. öld ljúki frumnorrænum tíma og að víkingaöld hefjist. Frumnorræna var töluð á landssvæðum þar sem nú eru Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Af landnámsmönnum Íslands hafa líklega flestir komið frá Norðurlöndum. Líklega hafa mállýskur þeirra sem settust hér að blandast og málið samræmst þar sem fólk raðaði sér ekki á landsvæði eftir uppruna sínum. Ætla má að við slíka mállýskujöfnun hafi málkerfið komist í jafnvægi þó erfitt sé að fullyrða nokkuð um það. Helgi bendir á að það sé vitað að útflytjendamál, eins og mál þeirra víkinga sem setjast að á Íslandi, virðist oft vera íhaldssamari en mál þeirra sem áfram dvelja í heimalandinu. Engir frumbyggjar eru á Íslandi þegar landið er numið svo ekkert annað tungumál er fyrir í landinu, íbúar landsins eru því ‘eintyngdir’. Til gamans má minna á að í dag eru margir Íslendingar tvítyngdir og gaman væri að lesa um til samanburðar hvaða áhrif það hefur á íslenskuna okkar í dag. Landslagið á Íslandi virðist eiga þátt í því að menn einangruðust ekki svo mikið. Landið er nokkuð greiðfært og samgöngur hringlaga, þ.e. úr sveit í sveit og landssvæðin síður einangruð. Þegar Helgi segir að landið sé nokkuð greiðfært bendir hann á að skóglendi var hér litið en skógar séu helst ógreiðfærir vegna villidýra en að sama skapi ekki firðir, fjöll, ár og vötn.

Helgi nefnir fjölmarga þætti til sögunnar sem verða ekki allir raktir hér. En mig langar þó að minnast á nokkra til viðbótar sem ég hafði ekki áttað mig á. Á Íslandi bjuggu menn á sveitabæjum og fjarlægðin var töluverð á milli. Kaupstaðir koma ekki til sögunnar fyrr en á 18. og 19. öld þó fjölbýlla hafi verið í kringum stórbýli og verstöðvar. Íslendingar fluttu búferlum milli landshluta oft á tíðum og ekki var mikil hefð fyrir því að ætt hafi búið á sömu jörð í margar kynslóðir. Til dæmis voru leiguliðar margir. Landið var ein stjórnarfarsleg heild og lagamálið íslenska. Menn fóru á ári hverju á Alþingi og dvöldu þar í einhvern tíma. Öll þessi skipan legu, lands, fólksbyggðar og skipulags virðist hafa leitt til þess að málið varðveittist og litlar breytingar verða á því lengi vel. Ég get ekki lokið umfjöllun um grein Helga án þess að nefna munnlega geymd þjóðsagna og kvæða sem virðist hafa verið nokkuð almenn og fastheldin á mál og form.

Ég bendi á að Helgi nefnir alls 25 atriði í grein sinni sem hafa haft áhrif á varðveislu málsins í gengum aldirnar en ég tel það óráð að taka þau öll til umfjöllunar hér. Þau atriði ættu allir þeir sem ætla sér að kenna um íslenska tungu að kynna sér og lesa vel.

Saturday, May 24, 2003

Breytingar á nafnvenjum Íslendinga síðustu áratugi.
Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson
Íslenskt mál 7, 1985.


Guðrún og Sigurður birta í grein sinni niðurstöður könnunar sem þau gerðu á nafnvenjum Íslendinga og breytingum á þeim síðustu áratugi. Þau studdust við heimildir úr fæðingarnúmeraskrá þjóðskrárinnar frá 1. desember 1982. Í henni voru 250.000 nöfn einstaklinga skráð ásamt ýmsum grunnupplýsingum um þá. Nokkrir annmarkar á skránni rýrðu heimildagildi hennar nokkuð. Nöfn voru skráð á gataspjöld frá árinu 1952, áður en tölvur voru teknar í notkun árið 1964, og var aðeins hægt að rúma 23 stafi fyrir nafn hvers einstaklings. Reyndar hafði þetta ekki breyst árið 1982 en ég veit ekki hvernig þessum málum er háttað í dag. Nöfn einstaklinga sem voru lengri en 23 stafir voru stytt og þá byrjað á að stytta –dóttir og –son en með lengri nöfn þrufti að stytta millinöfn, skammstafa með einum staf eða fleiri eða fella millinafnið alveg brott. Annað atriði sem skekkir myndina er að í tölvukerfi þjóðskrárinnar voru ekki allir íslenskir broddstafir einungis á og é og ekki var að finna neina erlenda stafi. Tölulegar upplýsingar úr könnunninni eru settar upp í töflur og er þar að finna upplýsingar um tíðni 50 algengustu karla- og kvennanafna sem 1. og 2. nafn frá því fyrir 1899 þar til 1982. Einnig er hægt að skoða 50 algengustu nöfnin 1982 flokkuð eftir kjördæmum.

Það er mjög spennandi að velta fyrir sér nafnagiftum og öll höfum við okkar skoðanir á því hvaða nöfn okkur finnast falleg. Lengi vel fannst mér mitt nafn ekki sérlega fallegt. Mér fannst það gamaldags og kerlingalegt. Ég brást illa við því sem barn ef einhver reyndi að stytta nafn mitt og svaraði engum sem vogaði sér að kalla mig Gunnu eða Guddu. Mér er sagt að ég hafi ekki verið há í loftinu þegar ég svaraði fólki því fullum hálsi að ég héti Guðrún Björk og hef æ síðan verið kölluð báðum nöfnum bæði á skólagöngu minni og á vinnustöðum. Í dag er ég mjög sátt við nafnið og stollt af því að heita svo kjarngóðu og íslensku nafni. Ég velti þessu töluvert fyrir mér með dóttur mína sem heitir Móeiður en ég heyri á leikskólanum hennar að margir eru farnir að kalla hana Móu. Ég ætlaði mér að verjast styttingum á nafninu með kjafti og klóm en hef ákveðið að leyfa henni sjálfri að ráða þessu þegar hún hefur meira vita á. Sjálf kalla ég hana aldrei annað en Móeiði og vona að henni eigi eftir að finnast nafnið jafn fallegt og okkur foreldrunum og gera þær kröfur til vina og ættingja að þeir kalli hana fullu nafni.

En víkjum nú aftur að könnun Guðrúnar og Sigurðar. Margt forvitnilegt kom í ljós. Það á bæði við um karlmanns- og kvenmannsnöfnin að vinsælustu nöfnin sem fyrsta nafn eru ekki endilega eins vinsæl sem annað nafn og öfugt. Sú regla virðist verða að annað nafn sé oftast 3-5 stafir að lengd, einkvæð eða tvíkvæð t.d. Þór og Ingi eða Ósk og Jóna. 5 algengustu karlanöfnin sem fyrsta nafn voru Jón, Sigurður, Guðmundur, Gunnar og Ólafur og 5 algengustu kvenmannsnöfnin sem fyrsta nafn voru Guðrún, Sigríður, Anna, Kristín og Margrét. Vinsælustu karlmannsnöfnin sem annað nafn voru Þór, Örn, Már, Ingi og Rúnar en kvenmannsnöfnin Björk, María, Björg, Ósk og Kristín. Þetta segir mér að ég hef sem barn heitið mestu tískunöfnunum Guðrún Björk. Það kemur í ljós þegar skoðaðar eru tíðnitölur eftir áratugum að nafnagiftir eru nokkuð að breytast síðasta áratuginn og að sjálfsögðu alltaf í þróun þrátt fyrir greinilega íhaldssemi Íslendinga sem vilja halda í gömul og rótgróin nöfn þó einhver ný bætist í hópinn.

Síðan Guðrún og Sigurður gerðu sína könnun árið 1982 hafa tekið gildi ný mannanafnalög. Þau tóku gildi 1. janúar 1997 og um leið var tekin í gildi sérstök skrá yfir þau mannanöfn bæði eigin- og millinöfn sem heimilt er að nota þegar börnum er gefið nafn. Þessi skrá er í sífelldri þróun og hægt er að fá úrskurð mannanafnanefndar um einstök nöfn sem ekki eru í skránni.

Ég fletti til gamans upp í Nafnabókinni okkar (2000) og í ljós kemur að vinsældarlistinn frá 1982 hefur töluvert breyst. Reyndar er þar miðað við nafnagiftir drengja og stúlkna á árinu 1998 og því nöfn allra annarra úr þjóðskrá ekki talin með. 5 vinsælustu karlmanns- og kvenmannsnöfnin árið 1998 eru Jón, Daníel, Sigurður, Aron og Alexander og Kristín, Sara, Anna, Helga og Birta. Það virðist einnig verða algengara að börn séu nefnd aðeins einu nafni en við þekkjum öll dæmi þess frá fyrri áratugum síðustu aldar að algengt var að börn væru nefnd 3 nöfnum og sum 4. Ég átti t.d. föðursystur sem hét Jóna Jóhanna Daðína og hef heyrt dæmi þess að börn hafi verið nefnd 4 nöfnum. Nú þekki ég ekki hvernig reglur um millinöfn hafa verið á þeim tíma en í dag er ekki leyfilegt að gefa barni nema eitt millinafn.

Í kennslu er mjög spennandi að kenna um nafnagiftir. Hægt er að láta nemendur velta fyrir sér uppruna nafna þ.e. hvaðan þau komi og hvernig þau eru komin úr ólíkum siðum; kristni, norrænni goðafræði, grískri goðafræði, úr öðrum tungumálum o.s.frv. Merking nafnanna er ekki síður merkileg og gaman að velta henni fyrir sér. Þar má einnig skoða hvernig merking nafnanna hefur aðra merkingu en orðið segir til um t.d. Ljótur sem merkir ‘bjartur´, Eiríkur ‘voldugur’ en ekki ‘fátækur’ eins og maður gæti haldið ofl. Börn og unglingar gætu einnig reynt að komast að því hvers vegna þeim var gefið það nafn sem þau bera, hvort þau heita í höfuðið á einhverjum eða hvort merkingin var ráðandi við nafnagiftina. Þar sem við höfum svo marga nemendur af erlendum uppruna í skólum landsins væri gaman að fjalla um siði í kringum nafnagiftir í öðrum löndum. Þá má einnig velta fyrir sér ættarnöfnum og hefðum þar í kring. Hægt er að fara með nemendur inn á Íslendingabók.is og skoða nöfn skyldmenna og tengsl þar á milli aftur í aldir. Möguleikarnir eru nær óþrjótandi og ég held að ég láti staðar numið hér.

Friday, May 23, 2003

Sko
Helgi Guðmundsson
Íslenskt mál, 1981.


Í grein sinni reynir Helgi að skýra uppruna orðsins sko, merkingu þess og hvaða orðflokki það tilheyrir. Í dag eru sko og orð sem hafa sams konar hlutverk í töluðu máli eins og bara og hérna nefnd orðræðuagnir eða hikorð eins og trúlega flestir þekkja þau. Eins og Helgi bendir á er orðið sko tíðheyrt en sjaldséð og dæmin sem hann tekur úr ritmálinu virðast öll vera komin úr barnabókmenntum. Það eru orð að sönnu að sko hefur löngum verið álitið hálfgert kvikindisorð, eins og Helgi vitnar til orða Jóns Ólafssonar á 18. öld og Sigfúsar Blöndal á 20. öld. Það þykir ekki fallegt að nota orðið hvort heldur er í töluðu eða rituðu máli. Orðið heyrist oft þegar talað er við ungabörn eða börn sem eru að byrja að tala og skilja það sem sagt er við þau. Hver kannast ekki við að segja ‘sko hvað þú ert dugleg’ eða einfaldlega ‘sko’ þegar búið er að setja saman kubba í merkingunni ‘sjáðu nú er þetta tilbúið’ þegar talað er við litlu hetjuna sem keppist við að feta ný spor í umhverfinu.

Ég má til með, áður en ég fjalla meira um grein Helga, að segja frá verkefni sem ég vann haustið 2002 í námskeiðinu Hagnýt málvísindi II ásamt félögum mínum Ágústu, Hrafnhildi og Kristínu. Við fengum það hlutverk að gera svolitla athugun á notkun orðræðuagnarinnar sko í töluðu máli. Við skoðuðum skráða samtalsbúta frá ÍSTAL sem við fengum hjá Þórunni Blöndal kennara námskeiðsins. Athugun okkar leiddi í ljós að notkun orðsins er ekki bundin við kyn eða aldur heldur er hún frekar persónubundin, þ.e. það er mismunandi eftir einstaklingum hvort þeir noti orðið og hversu mikið. Við rákumst reyndar ekki á neitt samtal þar sem orðið kom aldrei fyrir en það var greininlegur munur á notkun og um suma einstaklinga mátti segja að þeir notuðu orðið mikið. Það sem okkur þótti merkilegt var að það virtist sem noktun orðsins hefði margþættan tilgang í orðræðunni. Við sáum þetta þegar við fórum að skoða stöðu þess í setningum t.a.m. þagnir í orðræðum, hik, frammígrip, hratt tal ofl. Við veltum því einnig mikið fyrir okkur hvaða orðflokki orðið tilheyrði en tókst ekki að hengja það við neinn ákveðinn. Tilgangurinn með notkun orðsins í orðræðunni var margþættur. Við sáum dæmi þess að orðið var notað sem hikorð á meðan notandinn hugsaði sig um. Það kom einnig fyrir að orðið væri aftast í orðræðu til að leggja sérstaka áherslu á það sem sagt var. Orðinu var skotið inn þegar ræðumaður vildi fá orðið aftur sem hafði verið tekið af honum og halda áfram með ræðu sína. Einnig kom fyrir að orðið væri notað í miðri ræðu þegar sá sem talaði vildi breyta orðalagi eða því sem hann vildi segja. Dæmin voru fleiri en ég læt þessi nægja til að sýna að sko hefur greinilega margþættan tilgang í orðræðunni og þá ekki endilega sérstaka merkingu í því sem sagt er.

Helgi reynir að skýra merkingu orðsins og vísar í orðabók Sigfúsar Blöndal (1920-1924) þar sem sko er í senn skýrt sem upphrópun eða boðháttur af sögninni að skoða og er t.d. notað í setningum eins og ‘sko manninn, se det menneske, sko þarna er hann, se, der er han!’

Óljóst er hversu gamalt orðið sko er. Helgi segir það orð sem endaði á –o hafi verið næstum einstakt í málinu fram undir 1600. Hann útskýrir að það sé við hljóðbreytinguna vá>vó>vo að svo >so, tvo, þvo koma til sögunnar. Líklegast er sko yngra en þessi hljóðbreyting en það er þó staðfest eftir heimildum að orðið er til á 18. öld.

Helgi nefnir nokkur dæmi um notkun orðsins úr rituðu máli bæði gömul og ný. Það elsta er frá úr kvæði Benedikts Gröndal (1762-1825); ‘Nei, sko þá litlu lipurtá’. Nokkur dæmi nefnir hann úr barnabókum eftir Guðrúnu Helgadóttur og Sigrúnu Eldjárn frá 20. öld. Öll dæmin eiga það sameiginlegt að þau eru bein ræða í textanum sem skrifaður er og því má segja að höfundar séu að reyna að líkja eftir töluðu máli í bókmenntum sínum.

Nokkur dæmi nefnir Helgi úr töluðu máli:

•Ég er sko alveg hissa.
•Þú hefur sko ekki mikinn tíma.
•Hann var sko ekki billegur.

Merkingin er ýmist sjáðu, taktu eftir, líttu á eða eitthvað í þá áttina en stundum reyndar, aldeilis, sannarlega, svei mér þá. Sko virðist því stundum vera notað til ábendingar og stundum til áherslu.

Frá 18. öld hefur verið litið á sko sem stýfðan boðhátt notaðan sem upphrópun af sögninni skoða. Slíkir boðhættir eru til í fleiri tungumálum. Helgi segir þetta vel geta staðist í íslensku þar sem merkingin sé oftast sjáðu, taktu eftir líttu á o.s.frv. Sko stýrir einnig falli eins og áhrifssögn og myndun orðsins er alþekkt. En Helgi bendir á að merkingin er ekki alltaf þessi heldur stundum ‘reyndar, aldeilis, sannarlega og svei mér þá’.

Helgi kemst ekki að eiginlegri niðurstöðu í grein sinni en bendir á að margir noti sko eingöngu í þeirri merkingu sem kemur þar fram og þá í orðinu einu og sér eða fremst í setningu.

Tilvalið er að fjalla um notkun orðræðuagna eins og orðsins sko í kennslu á miðstigi eða unglingastigi í grunnskóla þegar fjallað er um muninn á töluðu og rituðu máli. Það má hvetja unglinga til að hlusta á talað mál í kringum sig og taka eftir því hvernig fólk notar hikorð. Einnig er holt að hlusta á sjálfan sig tala og veita því athygli hvort maður noti mikið hikorð. Ég vann verkefni með unglingum í 8. bekk í æfingakennslu síðastliðið haust þar sem þau fengu að hlusta á upptöku af frásögn unglings sem notaði hikorð nokkuð en sagði annars skemmtilega frá. Krökkunum fannst fráleitt að þau sjálf töluðu svona en þegar á reyndi gerðu þau það. Umræður spunnust um talað mál í sjónvarpi og þau áttuðu sig á að þar er á ferðinni undirbúið talað mál. Við fjölluðum því heilmikið og unnum með undirbúna og óundirbúna frásögn og það hvernig við reynum að forðast hikorð þegar við fáum tíma til að undirbúa okkur og hvernig við notum hikorðin í daglegu spjalli okkar við annað fólk.

Monday, May 19, 2003

Um Reykvísku
Eftir Höskuld Þráinsson og Kristján Árnason
Íslenskt mál 6, 1984.


Höskuldur og Kristján segja frá niðurstöðum rannsóknar sinnar þar sem kannað var málfar Reykvíkinga og Kópavogsbúa. Efnissöfnun fór fram á árunum 1981-1982 og var rætt við fólk í heimahúsum, á vinnustöðum og í skólum. Þátttakendur voru 198 og dreifing þeirra var nokkuð jöfn eftir aldri, búsetu og kyni. Þeir félagar greina einkum frá tíðni og dreifingu mállýskueinkenna eins og harðmælis, linmælis, flámælis og hv-framburðar og einnig 5 breyta sem falla undri skilgreininguna óskýrt eða hratt tal. Niðurstöðurnar bera þeir saman við niðurstöður Björns Guðfinnssonar sem gerði hliðstæða rannsókn á 10-13 ára börnum og unglingum árið 1941 eða 40 árum fyrr.

Greinin er mjög áhugaverð og hér mætti ræða allmargt um niðurstöður félaganna. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á ólíkri aðferðafræði hjá annars vegar Höskuldi og Kristjáni og hins vega Birni en sá samanburður er um margt mjög forvitnilegur. Yngsti hópurinn í könnun Höskuldar og Þráins samsvarar þeim aldurshópi sem Björn kannaði og því gátu þeir félagar borið hópana saman og skoðað þróun málfars barna og unglinga. Í 3. hópnum hjá H og Þ voru einstaklingar sem Björn kannaði sem börn en voru 46-55 ára þegar þeir félagar gerðu sína könnun. Þó þurftu þeir félagar að álykta í samanburði á sínum niðurstöðum og Björns því Björn flokkar málfar sinna þátttakenda einungis í þrennt; harðan framburð, linan framburð og blandaðan framburð. Margir af þeim sem eru flokkaðir linmæltir hjá Birni gætu verið flokkaðir undir skilgreininguna óskýrmælt eða hratt tal hjá H og K. Félagarnir skýra nákvæmlega frá samanburðinum og þeim óvissuþáttum sem honum fylgja en þrátt fyrir óvissuna gátu þeir ályktað margt áhugavert út frá niðurstöðunum.

Mér þótti einna athyglisverðast að samanburðurinn leiðir í ljós að harðmæli eykst með aldrinum og að jákvæð fylgni er milli menntunnar og harðmælis. Höskuldur og Kristján vísa í orð Björns í sínum niðurstöðum þar sem hann telur börn læra harðan framburð á heimili sínu en öðlast linan framburð í samskiptum við félaga sína þegar þau fara að umgangast þá í meira mæli eftir að skólagana hefst. Þessu er öfugt farið í niðurstöðum H og K og skýra þeir þennan mun sem áhrif af ötulli hreintungustefnu Björns og samtímamanna hans sem ráku áróður fyrir því að harðmæli væri betra mál en linmæli. Athuga verður þó að eftir því sem þátttakendur könnunarinnar eru eldri því líklegra er að þeir séu aðfluttir til Reykjavíkur.

Áður en ég fjalla um niðurstöður rannsóknarinnar á flámæli tel ég nauðsynlegt að glöggva lesendur á því hvað flámæli er. Ég hef aldrei hitt neinn sem talar flámæli eða heyrt það á förnum vegi en hef heyrt og lesið um dæmi þess í námi mínu í KHÍ. Reyndar má heyra örla á flámæli í fluttningi einstaka dægurlagatónlistarmanna á textum sínum og má þar nefna Stefán Hilmarsson, Björn Jörund Friðbjörnsson og Bergsvein Arilíusson. Í kennslu væri tilvalið að leyfa nemendum að heyra slíkan fluttning í umfjöllun um mállýskueinkenni. Einnig má vísa á gott dæmi á margmiðlunardisknum Alfræði íslenskrar tungu í ritstjórn Þórunnar Blöndal og Heimis Pálssonar. Flámæli eru breytingar á frammæltum miðlægum og fjarlægum sérhljóðum sem stundum er talið leiða til samfalls annars vegar á /i/ og /e/ og hins vegar á /u/ og /ö/. Sem dæmi má nefna að skyr verður sker og flugur verður flögur. Flámæli er nú mun sjaldgæfara í Reykjavík en það var á fimmta áratugnum. Í ljós kom hjá H og K að heildarmeðaltalið fyrir flámæli var mest í elsta hópnum en það sem kom á óvart var að næstalgengast var það hjá yngsta hópnum. Það virðist því vera að koma upp nýtt flámæli sem er öfugt við það gamla þ.e. það tekur frekar til fjarlægari hljóðanna og þá einkum /ö/. Ég má í þessu samhengi til með að segja frá orði sem ég heyrði nemanda minn 9. bekk nota þegar ég var í vettvangsnámi í Hagaskóla í nóvember síðastliðnum. Hún var að lýsa einhverri upplifun sinni og notaði orð sem ég skildi ekki í fyrstu en það var orðið ógeðslega sem hún bar fram sem ógisla. Þarna er nú reyndar fleira á ferðinni en samfall /e/ og /i/ , t.d. brottfall atkvæða og má segja að stúlkan sé mjög óskýrmælt. En mætti ekki nefna þetta sem dæmi um nýja flámælið þ.e.a.s. samfall verður? Annað dæmi má nefna sem hefur komið til tals í námi okkar í KHÍ en það er orðið stöðin sem borið er stundum fram sem stuðin. Rannsakendur vilja þó meina að nýja og gamla flámælið sé í raun af sömu rót og beri vitni um óstöðugleika í frammæltum sérhljóðum og geti þannig báðar leitt til samfalls. Þegar hroft er til framtíðar og miðað við tíðarandann í dag, sem einkennist af frelsi einstaklingsins og eiginhagsmunahyggju, er spennandi að velta því fyrir sér hvort málhreinsun og áróður fyrir góðu íslensku máli sé á undanhaldi og hvort menn eins og Björn Guðfinnsson séu einfaldlega komir úr ‘tísku’. Ég vísa í orð Þórunnar Blöndal ‘Er líf eftir Björn Guðfinnsson?’Hvernig verður staða íslenskunnar þá eftir nokkur ár? Er það tilefni til að hafa áhyggjur af eða eigum við að leyfa tungumálinu að þróast frjálst með notendum þess? Ég gæti skrifað langann pistil hér um hlutverk okkar kennara í íslenskukennslunni en ætla að láta nægja að benda á áhugaverðan sprota Þórunnar Blöndal á Netlu undir heitinu Íslenskukennsla á 21. öldinni.

En nóg um flámælið.

Niðurstöður H og K bornar saman við niðurstöður Björns leiða til þess að dregið hafi úr Hv-framburði í Reykjavík og í rannsókn H og K greindist hann helst meðal elstu þátttakendanna. Það forvitnilega kemur í ljós að framburðurinn er algengari hjá körlum en konum og benda þeir félagar á niðurstöður rannsókna erlendis sem segja að konur hafi þá tilhneygingu að aðlagast frekar nýju málumhverfi og temja sér ‘fínna málfar’ heldur en karlar.

Niðurstöður H og K sýndu nokkra fylgni á milli breyta sem þeir flokkuðu sem óskýrmæli eða hratt tal en þeir töldu fram fimm atriði; brottfall önghljóða, samlögun nefhljóða, brottfall atkvæðis, önghljóðun nefhljóða og brottfall nefhljóða. Einkennin voru öll algengari meðal ungs fólks en eldra, nema samlögun nefhljóða. Þá komum við aftur að þróun málsins og málbreytingum, því þessi niðurstaða segir okkur að þarna sé um slíkar breytingar að ræða. Reyndar er það nú þannig og við getum fullyrt að sum þessara einkenna hverfa hjá sumum með aldrinum og þá kannski þeim hluta hópsins sem kemur til með að mennta sig, ef alhæfa má út frá fyrrgreindum niðurstöðum H og K um að harðmæli aukist með aldrinum og menntun.

Ég hef nú lokið umræðunni um rannsókn Höskuldar og Kristjáns. Mér er ljóst sem verðandi kennaraefni að ég hef dregið mikinn lærdóm af rýninni í þessa grein sem verður mér gott veganesti í kennslu. Umfjöllun um mállýskur og mállýskueinkenni og bara það að fá nemendur til að hlusta á sjálfa sig og hvern annan tala og reyna að greina það á málvísindalegann hátt er frábært kennsluefni og glíma sem nemendur ættu að njóta að fást við. Ég tel brýnt að gera nemendum ljóst að við tilteknar aðstæður beri að vanda mál sitt og framburð og það eigi ekki alltaf það sama við hvort heldur sé spjallað saman í vinahópi eða rætt um málefni á opinberum vettvangi eins og í skólastofunni.


Höskuldur Þráinsson
Hvað merkir orðið bolli?
Íslenskt mál (1979)


Í grein sinni segir Höskuldur frá tilraun sem hann framkvæmdi í samvinnu við félaga sína þar sem leitast var við að kanna hvað orðið bolli merkti í huga fólks. Hugmyndina fékk Höskuldur úr grein eftir bandarískan málvísindamann, William Labov (1973) þar sem hann skýrir frá svipaðri tilraun sinni. Höskuldur tekur dæmi um skýringu á orðinu bolli úr Orðabók Menningarsjóðs frá 1963 og veltir því fyrir sér hvort sú skýring sé fullnægjandi;
bolli...1 ílát: blótb., drykkjarílát; hella í bolla, bollapar = b. með undirskál, sbr. þrælapar.
Höskuldur veltir upp spurningum um hlutverk orðabóka almennt, þ.e. annars vegar hvort það er að fræða notandann um orð og orðasambönd sem hann er óviss um og ef tilgangurinn er sá er ekki svo ýkja erfitt að skýra algeng orð eins og orðið bolli. Hins vegar hvort hlutverk orðabóka sé að afmarka með sem skýrustum hætti merkingu orða og orðasambanda sem tekin eru með en í því samhengi er ofangreind skýring ekki fullnægjandi. Tilraun Höskuldar var framkvæmd á vísindalegan hátt en Höskuldur segir frá framkvæmd hennar með ofurlitlu háði þannig að ég velti því fyrir mér við lesturinn hvort tilraunin væri meira gerð í gríni en alvöru. Mér finnst tilraunin áhugaverð og ákvað því að taka hana alvarlega hér í þessu spjalli. Fengnir voru alls 68 þátttakendur og var framkvæmdin með þrennu lagi. Öllum þátttakendum voru sýndar myndir af 28 ílátum en fengu mismunandi fyrirmæli.Um helmingur þátttakenda var spurður beint og þá einstaklingslega, þátttakandanum var sýnd mynd og hann beðin um að segja hvað hann kallaði fyrirbærið á myndinni. Öðrum þátttakendum var skipt í hópa og fékk annar hópurinn þau fyrirmæli að um væri að ræða eldhúsáhöld en hinn ílát undir blóm. Einstaklingarnir í hópunum svöruðu hver fyrir sig og það skriflega. Niðurstöðurnar notaði Höskuldur svo til að bæta við orðabókarskilgreininguna á orðinu bolli;
bolli ... 1 kringlótt ílát (drykkjarílát), venjulega með einu haldi, íhvolft og mjókkar niður, þvermál opsins yfirleitt heldur meira en hæð ílátsins (hlutfallið hæð/vídd gjarna nálægt 1:1.6, eða á bilinu 1:1.1 – 1:2.5)...
Höskuldur vildi vekja lesendur til umhugsunar um þá vinnu sem felst í því að skýra merkingu orða í orðabókum. Í huga manns er merking algengra orða eins og orðsins bolli augljós og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að allir skilji hvað ég á við þegar ég nota orðið í daglegu tali mínu. Mér er hins vegar fullljóst eftir lestur greinarinnar að það er ekki vandalaust verk að skýra merkingu algengra og auðskilinna orða þess þá heldur. ef skýringin á að vera með sem skýrustum hætti og að auki orðasambönd orðinu tengd skýrð. Til gamans og í alvöru fletti ég orðinu bolli upp í Orðabók Menninarsjóðs frá árinu 1983 og Íslenskri Orðabók frá 2002 til að forvitnast um hvort tilraun Höskuldar hefði haft áhrif á skýringu orðsins þar:
bolli, -a, -ar K 1 lítið ílát: blótb., drykkjarilát: hella í bolla, kaffib., bollapar = b. með undirskál (sbr. þrælapar), kaffib. 2 mælieining, 6 merkur mældar. 3 það sem kemst í einn bolla (t.d. 2 dl). ...

bolli –a, -ar KK 1 lítið ílát; blótbolli, drykkjarílát: hella í bolla/kaffibolli/bollapar bolli með undirskál. 2 sögul mælieining, 6 merkur mældar. 3 það sem kemst í einn bolla (t.d. 2 dl)....
Þið getið svo borið saman skýringarnar úr orðabókunum saman við viðbætur Höskuldar í gríni eða alvöru allt eftir því hvernig þið eruð stefnd og komist að eigin niðurstöðu.