Friday, June 06, 2003

Tungan
Stefán Karlsson


Greinin er yfirgripsmikil og fróðleg umfjöllun um helstu þætti íslenskrar málsögu. Mér tekst ekki að fjalla um allt það sem fram kemur í greininni en dreg fram þau atriði sem mér þóttu athyglisverðust. Meðal þess helsta sem Stefán fjallar um eru breytingar á hljóðkerfi málsins frá elstu íslensku, mun á beygingum fornmálsins og nútímamálsins, um orðaforða og hvað það er sem hefur haft áhrif á hann og um stafsetningu.

Íslenskan er af stofni germanskra mála sem flokkast í norðugermönsk-, austurgermönsk- og vesturgermönsk mál. Íslenskan og sömuleiðis færeyska, norska, danska og sænska eru af stofni norðurgermanskra mála og íslenskan vesturnnorrænt mál eins og norska. Þó má greina í íslensku nokkur orð af keltneskum uppruna og má þar nefna mannanöfnin Kjartan og Njáll. Áhrifamestu breytingarnar sem orðið höfðu á norrænu máli þegar Ísland fór að byggjast voru stóra brottfall sem var brottfall stuttra sérhljóða í áherslulítilli stöðu og hljóðvörp og klofning. Þessar breytingar voru ekki þær sömu á norræna málsvæðinu og þá fyrst fer málið að greinast í þau norrænu mál sem síðar hafa þróast í þau Norðulandamál sem við þekkjum í dag, utan finnsku af sjálfsögðu. Stefán segir norskuna hafa breyst meira en íslensku og þá sérstaklega á 13. og 14. öld. Hljóðbreytingar urðu í okkar máli sem ekki áttu sér hliðstæður í norsku en helsti munurinn er sá að beygingarkerfi norskunnar breytist og einfaldast mikið.

Mjög miklar breytingar verða á framburði málsins. Sérhljóðum fækkar mjög mikið eða úr 27, auk au, og þeim hefur fækkað í 16, auk au, ei og ey um 1200 og þeim heldur áfram að fækka. Maður verður þó að átta sig á því að slíkar málbreytingar eru lengi að ganga yfir og ætla má að það sé enn að gerast í dag. Sem dæmi um hljóðbreytingu sem verður nær okkur í tíma en var að mestu útrýmt má nefna flámælið sem mest var áberandi á fyrri hluta 20. aldar. Ef sú breyting hefði náð fótfestu hefði sérhljóðum fækkað enn því flámæltir gera lítinn greinarmun á i og e eða u og ö. Í umfjöllun minni um reykvískuna kom fram að nýtt flámæli væri jafnvel að greinast í málinu og því mætti segja að þær breytingar sem kæfðar eru í fæðingu skjóti upp kollinum aftur og nái jafnvel fram að ganga fyrst meira umburðarlyndi er ríkjandi nú gagnvart breytingum í málinu en áður. Breytingar sem hafa orðið á samhljóðakerfinu eru stöðubundnar en ná ekki til hljóðkerfisins eins og sérhljóðabreytingarnar. Þ.e.a.s. staða hljóðsins í talfærunum breytist eða færist til og þá hafa sérhljóðarnir og staða þeirra með samhljóðinu töluverð áhrif. Um 1300 verður sú breyting að á undan ng og nk voru stutt sérhljóð sem féllu saman við samsvarandi löng hljóð t.d. ing verður íng, yng verður ýng, ung verður úng. Önnur urðu tvíhljóð eins og eng verður eing, öng sem verður aung. Enn í dag heyrum við einhljóðaframburð sem lengi var staðbundinn á Vestfjörðum. Stefán segir íslenska samhljóðakerfið vera að mestu það sama til forna og í dag en breytinganna sé að gæta í framburði hljóðanna í ákveðnu hljóðaumhverfi. Helstu breytingar urðu þær að önghljóð sem myndast við að loft fer um þrengsli einhvers staðar í munninum breyttust í samsvarandi lokhljóð og einnig urðu rödduð samhljóð órödduð eins og í norðlensku.

Sameiginlegt fornnorrænt beygingarkerfi er varðveitt í öllum meginatriðum í íslensku og í færeysku hefur það varðveist að miklu leyti. Í öðrum málum hefur það einfaldast mjög mikið. Þetta styður kenninguna um áhrif einangrunar landsins og fjarlægð frá öðrum tungumálum. Færeyingar eru t.d. nær öðrum löndum en við og hafa lengi verið undir stjórn Dana svo áhrifin frá öðrum tungumálum eru líklegast meiri þar. Mesta breytingin á nafnorðabeygingum varð á karlkynsorðum sem höfðu endinguna –ir í nf. et. eins og hellir og mælir. R komst smám saman inn í beyginguna á 15., 16. og 17. öld og urðu þau þá í ft. hellirar, hellrar í stað hellar og hella. Gömlu myndirnar voru svo endurvaktar á 19. öld og náðu aftur fótfestu með aukinni skólagöngu. Mesta breytingin sem orðið hefur á formkerfi íslenskunnar er að tvítala persónufornafna og eignarfornafna í 1. og 2. persónu fellur út og í dag notum við eingögnu eintölu og fleirtölu. Tvítalan voru myndir orðanna eins og vit og þit sem síðar urðu við og þið og okkarr og ykkarr. Samsvarandi þessu voru fleirtölumyndirnar vér og ér síðar þér og várr síðar vor og yðarr notaðar um eina persónu í virðingarskyni. Mest ber á aðgreiningu milli tvítölu og fleirtölu frá 17. öld og fram á 18. öld. Tvítalan var þá notuð um það sem tvennt var eða fleira en fleirtalan að mestu í þéringum og embættisnafni. Breytingar hafa einkum orðið á sagnmyndum sterkra sagna og fáeinar þeirra fengu veika beygingu að einhverju eða öllu leyti t.d. hrinda (hratt), bjarga (barg) og ríta (reit).

Mér fannst skemmtilegast að lesa um orðaforða íslenskunnar og hvað hefur haft áhrif á hann. Í upphafi var orðaforðinn að mestu norrænn en nokkur keltnesk orð voru í málinu. Fáein tökurð hafa komið inn í málið með víkingum sem ferðuðust til fjarlægari landa eins og torg úr rússnesku og fíll úr persnesku. Kristinboð og kristni á Íslandi juku til muna við íslenskan orðaforða. Þau orð eru sum komin úr latínu en önnur úr grísku. Í dag verða flest tökuorð og nýyrði til vegna orða sem komin eru úr ensku, en auðvitað eru mörg orð í ensku ættuð úr latínu. Kirkjumálið var þó fyrst runnið undan rótum norrænna tungumála. Íslendingar brugðust vel við flóðbylgju nýrra orða sem kom inn í málið og fundu innlendum orðum sem til voru í málinu nýja merkingu. Þetta er hliðstætt því sem nýyrðasmíðin gengur út á í dag en mörg gömul orð fá þar nýtt hlutverk og nýja merkingu. Önnur erlend áhrif urðu vegna bókmennta og ýmissa vörutegunda sem flutt voru inn í landið. Má nefna orð eins og kurteis og kurteisi sem komin eru úr kappa- og riddarasögum. Óbein áhrif urðu úr þýsku fyrir áhrif hennar í öðrum Norðurlandamálum en þýskir kaupmenn silgdu lítið fyrr en á 15. öld. Samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir voru langmest við Danmörku og því gætti danskra áhrifa í málinu mikið. Danski málfræðingurinn Rask hafði miklar áhyggjur áhrifum dönskunnar á íslenskuna í byrjun 19. aldar og var ekki í vafa um að varla nokkur mundi skilja íslenskuna í landinu öllu að um 200 árum liðnum. Það er að miklu leyti Rask að þakka að menn áttuðu sig og réðust í umfangsmikla málhreinsun á 19. og 20. öld og áhrifanna gætir enn í dag. Fleira hefur átt þátt í því að íslenskan var varðveitt og má þar nefna rímna- og sagnahefð. Einnig voru breytingar á búskaparháttum litlar og orðaforðinn því lengi sá sami. Íslendingasögur og konungasögur voru lesnar úr gömlum handritum og voru einnig mikið lesnar eftir að þær urðu algengar á prenti á 19. öld. Menn fara snemma að benda á sérstöðu íslenskrar tungu og vara menn við erlendum áhrifum og má þar nefna Arngrím lærða sem fjallar um þetta í riti sínu um Ísland, sem reyndar birtist á latínu árið 1609. Áherslan á vandað mál er ríkjandi hjá Hallgrími Péturssyni og Jóni biskupi Vídalín á 17. öld. Á 18. öld fara menn að skrifa meira á móðurmálinu og þýða bókmenntir úr örðum tungumálum. Síðar eða á fyrri hluta 19. aldar benda menn eins og Sveinbjörn Egilsson og seinna Konráð Gíslason og Jónas Hallgrímsson á að gott íslenskt mál lifði ekki eingöngu í ritmáli heldur einnig í talmáli. Þarna gætir í raun fyrst þeirrar málstefnu sem æ síðan hefur verið fylgt á Íslandi.

Ókunnur höfundur fyrstu málfræðiritgerðarinnar á öndverðri ritöld reyndi að koma reglu á íslenska stafsetningu og voru tillögur hans í mjög góðu samræmi við íslenskan framburð. Reglurnar náðu þó lítilli fótfestu en eru mikilvægar heimildir um málið eins og það var á þeim tíma. Skrif manna voru með ólíkum hætti og næstu aldir einkennast þau af óreglu. Nýtt skeið hefst svo með prentun bóka um miðja 16. öld. Það er svo á 19. öld sem nokkur regla kemst á stafsetningu. Á 20. öld urðu breytingar á stafsetningu eins og brottfall z og menn spyrja sig hvenær i og í verður ritað í stað y og ý. Við getum þó vel við unað hér á Íslandi þar sem mál okkar er nokkuð hljóðrétt í framburði sem auðveldar stafsetningu mikið.

Ég tel okkur hafa góða ástæðu til að vera stollt af tungu okkar sem má segja að hafi haldist lítið óbreytt miðað við tungur annarra þjóða gegnum aldrirnar. Ég verð að segja að það er aðdáunarvert að svo fámennri þjóð hafi tekist að varðveita málið með þeim árangri sem við sjáum þegar farið er yfir sögu þess. En breytingar málsins verða hraðari um leið og hraði samfélagsins hefur aukist og samskipti við aðrar þjóðir einnig. Ísland er orðin fjölmenningarleg þjóð og án efa hefur það líka áhrif á breytingar málsins í framtíðinni. Þessum breytingum verðum við þó að taka með ró og spekt og átta okkur á því að tunga okkar er í stöðugri þróun sem ekki þarf endilega að vera neikvætt.


Monday, June 02, 2003

Þágufallssýki
Ásta Svavarsdóttir

Grein Ástu fjallar í megindráttum um tvennt. Fyrri hluti greinarinnar er lauslegt yfirlit um breytingar á fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegra setninga og þá einkum „þágufallssýki “. Í seinni hluta greinarinnar segir Ásta frá niðurstöðum könnunnar sem hún gerði veturinn 1980-1981 meðal 11 ára barna á fallnotkun með ópersónulegum sögnum.

Greinin er mjög vel skrifuð og fróðleg. Ég lærði margt við rýni mína í hana um rætur þágufallssýkinnar og þá ýmislegt sem ég hafði ekki áttað mig á áður.

Ég ætla að segja lauslega frá niðurstöðum í könnun Ástu en langar meira að deila með ykkur efni greinarinnar um fallnotkun orða í frumlagssæti ópersónulegra setninga. Umfjöllun Ástu leiddi mig í sannleikann um hvers vegna fólk ruglar notkun frumlags með ópersónulegu sögnunum en það skiptir verulegu máli að átta sig á þeim þáttum fyrir þá sem vilja skilja meinið til hlýtar. Ég ætla ekki að skilgreina öll hugtök og reglur sem koma fram í grein Ástu því það yrði allt of langt mál hér heldur glöggva okkur á þeim atriðum sem ég tel skipta mestu máli.

Þegar setning er ópersónuleg er það vegna þess að sögnin lagar sig ekki að persónu og tölu nafnliðarins sem stendur í frumlagsstöðu jafnvel þótt hún sé í persónuhætti. Þetta gerist þegar nafnliðurinn stendur í aukafalli, þolfalli eða þágufalli. Ásta nefnir dæmi um persónulegar (1) - og ópersónulegar (2) setningar til samanburðar;
(1) Ég hitti Benjamín á ballinu.
(2) Mér þótti gaman á ballinu.
Í persónulegum setningum táknar frumlagið frekar geranda en þolanda (eða reynanda eins og Höskuldur Þráinsson kallar hugtakið) en því er öfugt farið í ópersónulegum setningum;
Pési rak strákana á land.
Hvalinn rak á land.
Það sést einnig á þessum dæmum að merking sagnarinnar að reka er ekki sú sama í báðum setningum.

En víkjum þá að rótum þágufallssýkinnar. Þolfallið í frumlagssæti ópersónulegra setninga hefur tilhneygingu til að víkja fyrir þágufalli. Þannig að í stað þess að segja t.d. mig langar segja menn mér langar. Sögnin tekur hér engum breytingum þótt frumlagið breytist úr þolfalli í þágufall. Ég verð að geta þess, þó ég fjalli ekki frekar um það hér, að þolfallið hefur einnig tilhneyginu til að víkja fyrir nefnifalli í ópersónulegum setningum en sú breyting er svolítið frábrugðin þágufallsbreytingunni. Þegar sú breyting verður fær nafnliðurinn einkenni frumlags þannig að sögnin lagar sig að honum í persónu og tölu og setningin verður persónuleg. Ásta fullyrðir að þessi tilhneyging sé frekar óalgeng í daglegu tali. Upprunalega taka sumar ópersónulegar sagnir með sér frumlag í þolfalli en aðrar í þágufalli. Sagnir sem taka með sér þágufall eru miklu algengari í málinu en þær sem taka með sér þolfall. Það virðist því vera um einhverskonar samræmingu á fallnotknun frumlagsins að ræða þegar litið er á málbreytinguna sem hér hefur verið kölluð þágufallssýki. Einnig má segja að þágufallssýkin sé tilhneyging til einföldunar í málkerfinu. Allar þær sagnir sem um ræðir eru líkar að merkingu og tákna flestar eins konar hugar- eða líkamsástand. Það má því segja að þær séu heildstæður merkingaflokkur og því verði tilhneyging til að skipa þeim einnig saman í formlegan flokk. Einnig hættir fólki til að nota sagnir eins og hlakka og kvíða sem ópersónulegar sagnir þó að upprunalega séu þær persónulegar.

Ég tók eftir því í skrifum Ástu að hún notar sömu sjúkdómsheitin í umfjöllun sinni um málbreytingar eins og Gísli Pálsson gagnrýndi í grein sinni Vont mál vond málfræði. Hún talar jafnan um þágufallssýki og nefnir einnig áráttu um sama fyrirbæri. Slík orðanotkun stingur óneitanlega í augun þegar maður er eins og ég undir áhrifum af skrifum Gísla og veltandi vöngum yfir málbreytingum og kennslu þeim tengdum. Ég verð að segja, áður en ég held áfram, að ég er alls ekki sátt við slíka neikvæða orðanotkun en nota orðið þágufallssýki hér til að rugla engan rýminu.

Eins og Ásta bendir á í grein sinni er þágufallssýkin líklega komin til að vera jafnvel þótt amast sé við henni í skólum og opinberlega sé hún álitin röng. Hún er einnig áhugaverð því hún tengist sögnum sem eru mjög algengar í málinu t.d. vanta, langa, dreyma o.s.frv. Ásta nefnir einnig þá gagnrýni sem málverndasinnar hafa hlotið fyrir umfjöllun sína um málbreytinguna t.d. tengsl hennar og félagslegrar stöðu í þjóðfélaginu. Mér þótti athyglisvert að lesa um sjónarmið B. Chr. Jacobsen (1980) en hann telur að þolfall með ópersónulegum sögnum vera tillært og sé í andstöðu við málkerfið. Af þeim sökum mætti telja eðlilegt að slík málbreyting nái fram að ganga. Hann bendir einnig á að baráttan gegn þágufallssýkinni gæti leitt til þess að þolfallssagnirnar dæju út í málinu eða hún gæti valdið klofningi í málnotknun í hversdagsmál og opinbert mál. Fólk notaði þannig þolfall með ópersónulegum sögnum við sérstök tækifæri en í daglegu tali væri þágufallið notað.

Eins og fyrr sagði gerði Ásta könnun á fallnotkun með ópersónulegum sögnum. Hún reyndi að leita svara við spurningum eins og hversu algeng þágufallssýkin væri, hvort hún fylgdi einhverjum sérstökum reglum, hvort hún fylgdi ákveðnum sögnum, hvort munur væri á fallnotknu eftir því hvort frumlagið væri 1. eða 3. persónu fornafn og hvort einhverjir fylgikvillar fylgdu þágufallssýkinni.

Niðurstöður Ástu leiddu í ljós að þágufallssýkin er nokkuð algeng. Þátttakendur í könnuninni rugluðu nokkuð fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegu sagnanna og algengara var að notað væri þágufall með 3. persónu en 1. persónu. Fólk virðist vanda sig með 1. persónuna og segja t.d. mig langar en ruglar svo 3. persónunni með því að segja karlinum langar í stað karlinn langar. Lítil tilhneyging virtist til að rugla saman persónulegum- og ópersónulegum sögnum. Samkæmt niðurstöðum er þágufallssýkin ekki svæðisbundin heldur finnst hún á öllum þeim landssvæðum sem kannað var á. Í ljós kom að þeim sem gengur illa í námi hættir frekar til að rugla frumlagsfallinu heldur en þeim sem gengur vel í námi og af því mætti leiða að þolfallsmyndunin með ópersónulegu sögnunum sé tillærð eins og B. Chr. Jacobsen hélt fram.

Af þessari umræðu má ætla að vita vonlaust sé að amast við þágufallssýkinni og spurningin ekki hvort heldur hvenær sú málbreyting verður viðurkennd. Það væri gaman að heyra hvernig þessi umræða er á unglingastigi í grunnskólum meðal kennara og nemenda og hvernig kennarar taka á slíkri málnotkun.

Thursday, May 29, 2003

Stutt saga úr grunnskóla.....

Ég verð að segja ykkur frá dæmi um málbreytingu sem ég sá í skólanum sem ég kenni í nú í vikunni. Uppi á vegg á kennarastofunni hangir auglýsing um óvissuferð starfsfólks skólans og þar stendur meðal annars „það verður skemmt sér konunglega”. Mér varð hugsað til umræðna okkar í námskeiðinu um nýju þolmyndina. Okkur fannst þetta öllum óþægileg málnotkun og ég er viss um að ekkert okkar talar svona. Þau sem útbjuggu auglýsinguna sem hékk uppi í skólanum eru öll kennarar við skólann á okkar aldri og eldri svo af þessu dæmi má greinilega sjá að nýja þolmyndin er komin til að vera og fyrirfinnst meðal ungra kennara í dag. Þá velti ég því enn og aftur fyrir mér, þar sem mér finnst þetta ekki gott mál og vísa í það sem ég skrifaði um grein Gísla Pálssonar, hvernig maður eigi að taka á þessu máli í kennslu. Ég kem til með að kenna 1. bekk í haust og hlakka mikið til. Það verður eflaust fróðlegt að heyra hvernig 6 ára nemendur nota málið og mig langar að vinna markvisst að málnotkun með þeim, kenna þeim ný orð sem þau hafa ekki lært og æfa þau í að nota þau. Ég hef sagt ykkur frá kennsluaðferð sem er orðin þekkt hér við skólann og er kölluð Perluvinafélagið. Einn gamalreyndur kennari við skólann sem heitir Sólveig Sveinsdóttir á þessa hugmynd og margir hafa tekið hana upp hér í yngri bekkjunum og unnið með hana. Perluvinafélagið eru nemendurnir í bekknum sem ætla að vera perluvinir. Í hverri viku leggur kennarinn inn nýtt orð til að nota í perluvinahópnum. Orðið lýsir því hvernig perluvinirnir vilja vera eða haga sér gagnvart hver öðrum t.d. orð eins og tillitssamur, hughraustur, kjarkaður, vingjarnlegur ofl. Kennarinn ræðir við nemendur um hvað orðið merkir og svo búa þau sameiginlega til dæmi um hvernig þau geta notað orðið í samskiptum sín á milli. Orðið er sett í perluvinaorðabókina sem hangir uppi á vegg og nemendur hafa myndskreytt. Nemendur nota orðin til að lýsa hvert öðru og tilfinningum í garð hvers annars. Kennarar sem nota þessa aðferð hafa séð að nemendur tileinka sér orðaforðann og nota orðin í daglegu tali. Sjö ára nemandi kom til kennara síns eftir frímínútur og sagði „ég var mjög kjarkaður úti í dag, ég fór til kennara og sagði honum að strákur væri að stríða mér” Markmiðið með þessari kennslu er eins og þið sjáið að auðga bekkjarandann en um leið að kenna nemendum ný orð og æfa þau í að nota þau. Ég hef hugsað mér að nota þessa hugmynd með 1. bekknum mínum í haust en langar að útfæra hana svolítið. Það verður verkefni í sumar en ég ætla að nota tvær síðustu vikurnar af júní til að hefja undirbúning fyrir kennslu næsta haust.

Hvernig væri ef við héldum áfram blogginu eftir að við verðum öll komin út í grunnskólana nú í haust og segjum sögur úr skólalífinu? Það væri án efa mjög gagnleg umræða og gaman að deila með ykkur pælingum um málnotknum og málfræði í kennslu og fá að heyra hvað þið verðið að fást við.

Sunday, May 25, 2003

Vont mál og vond málfræði
Gisli Pálsson


Grein Gísla er mjög beitt og harðorð í garð málvísindamanna sem aðhyllast málveirufræði eins og hann kallar málfræðina og ég mun koma betur að hér á eftir. Maður getur þó ekki annað en tekið undir með Gísla og verið sammála honum þegar maður les hrokafullar yfirlýsingar málverndunarsinna um alþýðuna og hvernig hún fer með málið eins og það kemur þeim fyrir sjónir en Gísli vitnar til nokkurra þeirra í grein sinni.

Gísli notar hugtakið ‘málveirufræði’ yfir málvísindi til að leggja áherslu á skoðun sína á og störfum og skrifum málfræðinga sem hann lýsir í grein sinni. Hann segir réttast að kallar málfræðingana málveirufræðinga þar sem þeir nefna gjarnan breytingar á málinu plágur eða sýkingar og má þar nefna þágufallssýki og hljóðvillu. Málveirufræðingarnir ganga reyndar svo langt að kalla vont mál og málfarsbreytingar til marks um almennan sóðaskap. Gísli vill meina að viðhorf málveirufæðinganna til þróunar íslenskunnar sé byggt á fölskum og beinlínis röngum forsendum og að skoðanir þeirra einkennist af þröngsýni og vanþekkingu á áhrifum félagsfræðilegra þátta á málfarsþróun. Hann vill meina að afstaða málveirufræðinganna sé pólitísk og gengur svo langt að fullyrða að þeir hafi fengið áhrifastöður í þjóðfélaginu og að stofnanir á borð við Háskóla Íslands hafi verið settar á laggirnar að launum fyrir ötullt málhreinsunarstarf og stuðning við sjáfstæðisbaráttu Íslendinga. Ég verð nú reyndar að segja að sumar fullyrðingar Gísla jaðra við að vera gífuryrði og í anda málveirufræðinganna en tel hann þó hafa mikið til síns máls.

Orð málverndunarsinna hafa gegnum tíðina eins og Gísli vitnar til verið mjög hrokafull í garð þeirra sem ekki tala rétt mál. Með rökleysum sínum hafa þeir gert litið úr alþýðunni með fullyrðingum um bein tengsl greindar og málvillna eða það að tala ekki rétt mál eigi sér skýringar eins og að ‘eiga ekki nógu góðan pabba og mömmu’, vera ‘götustrákur’ eða tilheyra ‘skrílnum’. Það má segja að þeir álíti slíka umfjöllun til þess fallna að sannfæra menn um að forðast veiruna eða sýkina en ég er hrædd um að það hafi ekki haft tilskilin áhrif eins og reyndar Gísli bendir á. Gísli segir aðferðir og aðför málveirufræðinganna vera tilraunir til að endurvekja gamla tíma og snúa breytingarferlinu við. Það má líkja því við áhrif leiðréttinga á málfar barna og unglinga. Fræðimenn eru almennt sammála um að það að leiðrétta börn beint þegar þau tala ekki rétt beri ekki þann árangur úr býtum að þau fari að tala rétt heldur sé betra ráð að endurtaka það sem þau sögðu og segja það sem rangt var sagt rétt. Þessi sjónarmið að álíta vont málfar til marks um lágt greindarstig eða innantómt menningarlíf kallar Gísli hörgulkenningu. Réttara væri að kanna félagslegar orsakir þeirra málbreytinga sem eiga sér stað og leita skýringa og leiða til úrbóta reistum á þeim rökum frekar en hrokafullum fullyrðingum.

Gísli bendir á að líklegt sé að stéttarþróun á Íslandi undanfarna áratugi hafi sín áhrif á málþróun. Breytingar eins og aukin þéttbýlismyndun og breyttir þjóðfélags- og atvinnuhættir hafi einnig tilskilin áhrif. Það væri réttast eins og Gísli bendir á að rannsaka götumálið í stað þess að úthrópa það eins og málveirufræðingarnir virðast hafa gert.

Málbreytingar eru mjög áhugavert umfjöllunarefni og ég gæti trúað því að hlutlaus umfjöllun kennara um þær í kennslu geti fengið nemendur til að skoða málfar sitt og félaga sinna í þeim tilgangi að kanna hvað sé tækt eða ótækt í þeim efnum. Manni verður einnig spurn eftir lestur greinarinnar hvað sé málbreyting og hvað málvilla? Trúlega er besta leiðin til að svara þessu að gera athugun á hverju tilfelli fyrir sig, fara yfir beygingu og setningarlega stöðu og bera saman við þær breytingar sem orðið hafa á þróun tungumálsins. Gísli tekur dæmi um þágufallssýkina og bendir á að þar virðist tilhneygingin vera sú að ópersónulegar sagnir fara að haga sér eins og persónulegar t.d. mér hlakkar til í stað ég hlakka til og málin báru á góma í stað málin bar á góma. Ég verð að viðurkenna sem verðandi kennari að þetta verður ekki auðvelt verk. Ég veit heldur ekki alveg hvorn pólinn ég á að taka í hæðina því ég er alinn upp af málverndunarsinnum og var statt og stöðugt leiðrétt ef ég talaði ekki rétt. Ég var og er haldin málótta og ofvöndun við ákveðnar aðstæður og hef verið þeirrar skoðunar að sem kennara beri mér að tala rétt og gott mál og vera nemendum mínum góð fyrirmynd. En þá dettur mér í hug; fyrirmynd hvers? Málótta og ofvöndunar? Er ég þá í raun málveirusinni sem aðhyllist hörgulkenninguna? Ég verð að viðurkenna að ég stend á krossgötum og þarf án efa kæru félagar stuðning ykkar í framtíðinni þegar ég stend frammi fyrir nemendum, foreldrum og samkennurum og fullyrði að þágufallssýki sé málbreyting sem við verðum að sætta okkur við og viðurkenna sem breytingu á tungumáli okkar.
Um ytri aðstæður íslenskrar málþróunar
Helgi Guðmundsson


Sú fullyrðing að íslenskan hafi breyst lítið frá fornu fari til okkar daga kann að hljóma röng þegar maður hugsar til þess að hafa rýnt sveittur í forna texta í bókmenntaáföngum í menntaskóla með orðskýringar og orðabækur sér til halds og trausts. Hver man ekki eftir því sem unglingur að hafa setið með Hávamál og Eddukvæði og þýtt þá texta yfir á ‘nútímaíslensku’ áður en maður fékk skilið hvað í þeim stóð? Eftir að hafa fengið þá skólun og að auki þroskast svolítið er þetta auðveldara en þó get ég ekki sagt að ég lesi forna texta án mikillar fyrirhafnar, langt því frá. Samanborið við aðrar þjóðir og skyld mál eins og norsku og ensku þá er það raunin að íslenskan hefur breyst lítið frá fornmálinu. Meiri munur er á fornnorsku og nútímanorsku og fornensku og nútímaensku en forníslensku og nútímaíslensku.

Ákveðin stöðnun og íhaldssemi virðist hafa einkennt íslenskuna og þróun hennar og má t.a.m. nefna að litill mállýskumunur er eftir landshlutum. Hvað mállýskur varðar virðist verða einhvers konar hringrás og aðlögun um allt land. Hvað veldur þessu er óljóst en nærtækustu skýringar sem koma upp í kollinum eru lega landsins og fjarlægð frá öðrum tungumálum. Hvað varðar breytingar nær okkur í tíma er það t.d. ekki fyrr en á 9. áratug síðustu aldar sem útvarps- og sjónvarpsstöðvum fjölgar úr einni á hvorum miðli fyrir sig. Það má þó ekki gleyma erlendum áhrifum eins og Kanasjónvarpinu og hernámsárunum en ég get ekkert fullyrt um þau áhrif hér. Þjóðerniskenndin var ríkjandi lengi og eitt helsta haldreipi manna í rökfærslum sínum fyrir sjálfstæði Íslendinga var tungumálið og sérstaða þess. Málhreinsun var mikil og það tókst að sannfæra menn um að mun merkilegra væri að tala og skrifa á sannri íslensku heldur en að sletta á dönsku.

En nú vík ég aftur að grein Helga.
Athuga verður að heimildir skortir til að hægt sé að fullyrða nokkuð um þróun málsins á landnámsárum. Þó er talið að á 8. öld ljúki frumnorrænum tíma og að víkingaöld hefjist. Frumnorræna var töluð á landssvæðum þar sem nú eru Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Af landnámsmönnum Íslands hafa líklega flestir komið frá Norðurlöndum. Líklega hafa mállýskur þeirra sem settust hér að blandast og málið samræmst þar sem fólk raðaði sér ekki á landsvæði eftir uppruna sínum. Ætla má að við slíka mállýskujöfnun hafi málkerfið komist í jafnvægi þó erfitt sé að fullyrða nokkuð um það. Helgi bendir á að það sé vitað að útflytjendamál, eins og mál þeirra víkinga sem setjast að á Íslandi, virðist oft vera íhaldssamari en mál þeirra sem áfram dvelja í heimalandinu. Engir frumbyggjar eru á Íslandi þegar landið er numið svo ekkert annað tungumál er fyrir í landinu, íbúar landsins eru því ‘eintyngdir’. Til gamans má minna á að í dag eru margir Íslendingar tvítyngdir og gaman væri að lesa um til samanburðar hvaða áhrif það hefur á íslenskuna okkar í dag. Landslagið á Íslandi virðist eiga þátt í því að menn einangruðust ekki svo mikið. Landið er nokkuð greiðfært og samgöngur hringlaga, þ.e. úr sveit í sveit og landssvæðin síður einangruð. Þegar Helgi segir að landið sé nokkuð greiðfært bendir hann á að skóglendi var hér litið en skógar séu helst ógreiðfærir vegna villidýra en að sama skapi ekki firðir, fjöll, ár og vötn.

Helgi nefnir fjölmarga þætti til sögunnar sem verða ekki allir raktir hér. En mig langar þó að minnast á nokkra til viðbótar sem ég hafði ekki áttað mig á. Á Íslandi bjuggu menn á sveitabæjum og fjarlægðin var töluverð á milli. Kaupstaðir koma ekki til sögunnar fyrr en á 18. og 19. öld þó fjölbýlla hafi verið í kringum stórbýli og verstöðvar. Íslendingar fluttu búferlum milli landshluta oft á tíðum og ekki var mikil hefð fyrir því að ætt hafi búið á sömu jörð í margar kynslóðir. Til dæmis voru leiguliðar margir. Landið var ein stjórnarfarsleg heild og lagamálið íslenska. Menn fóru á ári hverju á Alþingi og dvöldu þar í einhvern tíma. Öll þessi skipan legu, lands, fólksbyggðar og skipulags virðist hafa leitt til þess að málið varðveittist og litlar breytingar verða á því lengi vel. Ég get ekki lokið umfjöllun um grein Helga án þess að nefna munnlega geymd þjóðsagna og kvæða sem virðist hafa verið nokkuð almenn og fastheldin á mál og form.

Ég bendi á að Helgi nefnir alls 25 atriði í grein sinni sem hafa haft áhrif á varðveislu málsins í gengum aldirnar en ég tel það óráð að taka þau öll til umfjöllunar hér. Þau atriði ættu allir þeir sem ætla sér að kenna um íslenska tungu að kynna sér og lesa vel.

Saturday, May 24, 2003

Breytingar á nafnvenjum Íslendinga síðustu áratugi.
Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson
Íslenskt mál 7, 1985.


Guðrún og Sigurður birta í grein sinni niðurstöður könnunar sem þau gerðu á nafnvenjum Íslendinga og breytingum á þeim síðustu áratugi. Þau studdust við heimildir úr fæðingarnúmeraskrá þjóðskrárinnar frá 1. desember 1982. Í henni voru 250.000 nöfn einstaklinga skráð ásamt ýmsum grunnupplýsingum um þá. Nokkrir annmarkar á skránni rýrðu heimildagildi hennar nokkuð. Nöfn voru skráð á gataspjöld frá árinu 1952, áður en tölvur voru teknar í notkun árið 1964, og var aðeins hægt að rúma 23 stafi fyrir nafn hvers einstaklings. Reyndar hafði þetta ekki breyst árið 1982 en ég veit ekki hvernig þessum málum er háttað í dag. Nöfn einstaklinga sem voru lengri en 23 stafir voru stytt og þá byrjað á að stytta –dóttir og –son en með lengri nöfn þrufti að stytta millinöfn, skammstafa með einum staf eða fleiri eða fella millinafnið alveg brott. Annað atriði sem skekkir myndina er að í tölvukerfi þjóðskrárinnar voru ekki allir íslenskir broddstafir einungis á og é og ekki var að finna neina erlenda stafi. Tölulegar upplýsingar úr könnunninni eru settar upp í töflur og er þar að finna upplýsingar um tíðni 50 algengustu karla- og kvennanafna sem 1. og 2. nafn frá því fyrir 1899 þar til 1982. Einnig er hægt að skoða 50 algengustu nöfnin 1982 flokkuð eftir kjördæmum.

Það er mjög spennandi að velta fyrir sér nafnagiftum og öll höfum við okkar skoðanir á því hvaða nöfn okkur finnast falleg. Lengi vel fannst mér mitt nafn ekki sérlega fallegt. Mér fannst það gamaldags og kerlingalegt. Ég brást illa við því sem barn ef einhver reyndi að stytta nafn mitt og svaraði engum sem vogaði sér að kalla mig Gunnu eða Guddu. Mér er sagt að ég hafi ekki verið há í loftinu þegar ég svaraði fólki því fullum hálsi að ég héti Guðrún Björk og hef æ síðan verið kölluð báðum nöfnum bæði á skólagöngu minni og á vinnustöðum. Í dag er ég mjög sátt við nafnið og stollt af því að heita svo kjarngóðu og íslensku nafni. Ég velti þessu töluvert fyrir mér með dóttur mína sem heitir Móeiður en ég heyri á leikskólanum hennar að margir eru farnir að kalla hana Móu. Ég ætlaði mér að verjast styttingum á nafninu með kjafti og klóm en hef ákveðið að leyfa henni sjálfri að ráða þessu þegar hún hefur meira vita á. Sjálf kalla ég hana aldrei annað en Móeiði og vona að henni eigi eftir að finnast nafnið jafn fallegt og okkur foreldrunum og gera þær kröfur til vina og ættingja að þeir kalli hana fullu nafni.

En víkjum nú aftur að könnun Guðrúnar og Sigurðar. Margt forvitnilegt kom í ljós. Það á bæði við um karlmanns- og kvenmannsnöfnin að vinsælustu nöfnin sem fyrsta nafn eru ekki endilega eins vinsæl sem annað nafn og öfugt. Sú regla virðist verða að annað nafn sé oftast 3-5 stafir að lengd, einkvæð eða tvíkvæð t.d. Þór og Ingi eða Ósk og Jóna. 5 algengustu karlanöfnin sem fyrsta nafn voru Jón, Sigurður, Guðmundur, Gunnar og Ólafur og 5 algengustu kvenmannsnöfnin sem fyrsta nafn voru Guðrún, Sigríður, Anna, Kristín og Margrét. Vinsælustu karlmannsnöfnin sem annað nafn voru Þór, Örn, Már, Ingi og Rúnar en kvenmannsnöfnin Björk, María, Björg, Ósk og Kristín. Þetta segir mér að ég hef sem barn heitið mestu tískunöfnunum Guðrún Björk. Það kemur í ljós þegar skoðaðar eru tíðnitölur eftir áratugum að nafnagiftir eru nokkuð að breytast síðasta áratuginn og að sjálfsögðu alltaf í þróun þrátt fyrir greinilega íhaldssemi Íslendinga sem vilja halda í gömul og rótgróin nöfn þó einhver ný bætist í hópinn.

Síðan Guðrún og Sigurður gerðu sína könnun árið 1982 hafa tekið gildi ný mannanafnalög. Þau tóku gildi 1. janúar 1997 og um leið var tekin í gildi sérstök skrá yfir þau mannanöfn bæði eigin- og millinöfn sem heimilt er að nota þegar börnum er gefið nafn. Þessi skrá er í sífelldri þróun og hægt er að fá úrskurð mannanafnanefndar um einstök nöfn sem ekki eru í skránni.

Ég fletti til gamans upp í Nafnabókinni okkar (2000) og í ljós kemur að vinsældarlistinn frá 1982 hefur töluvert breyst. Reyndar er þar miðað við nafnagiftir drengja og stúlkna á árinu 1998 og því nöfn allra annarra úr þjóðskrá ekki talin með. 5 vinsælustu karlmanns- og kvenmannsnöfnin árið 1998 eru Jón, Daníel, Sigurður, Aron og Alexander og Kristín, Sara, Anna, Helga og Birta. Það virðist einnig verða algengara að börn séu nefnd aðeins einu nafni en við þekkjum öll dæmi þess frá fyrri áratugum síðustu aldar að algengt var að börn væru nefnd 3 nöfnum og sum 4. Ég átti t.d. föðursystur sem hét Jóna Jóhanna Daðína og hef heyrt dæmi þess að börn hafi verið nefnd 4 nöfnum. Nú þekki ég ekki hvernig reglur um millinöfn hafa verið á þeim tíma en í dag er ekki leyfilegt að gefa barni nema eitt millinafn.

Í kennslu er mjög spennandi að kenna um nafnagiftir. Hægt er að láta nemendur velta fyrir sér uppruna nafna þ.e. hvaðan þau komi og hvernig þau eru komin úr ólíkum siðum; kristni, norrænni goðafræði, grískri goðafræði, úr öðrum tungumálum o.s.frv. Merking nafnanna er ekki síður merkileg og gaman að velta henni fyrir sér. Þar má einnig skoða hvernig merking nafnanna hefur aðra merkingu en orðið segir til um t.d. Ljótur sem merkir ‘bjartur´, Eiríkur ‘voldugur’ en ekki ‘fátækur’ eins og maður gæti haldið ofl. Börn og unglingar gætu einnig reynt að komast að því hvers vegna þeim var gefið það nafn sem þau bera, hvort þau heita í höfuðið á einhverjum eða hvort merkingin var ráðandi við nafnagiftina. Þar sem við höfum svo marga nemendur af erlendum uppruna í skólum landsins væri gaman að fjalla um siði í kringum nafnagiftir í öðrum löndum. Þá má einnig velta fyrir sér ættarnöfnum og hefðum þar í kring. Hægt er að fara með nemendur inn á Íslendingabók.is og skoða nöfn skyldmenna og tengsl þar á milli aftur í aldir. Möguleikarnir eru nær óþrjótandi og ég held að ég láti staðar numið hér.

Friday, May 23, 2003

Sko
Helgi Guðmundsson
Íslenskt mál, 1981.


Í grein sinni reynir Helgi að skýra uppruna orðsins sko, merkingu þess og hvaða orðflokki það tilheyrir. Í dag eru sko og orð sem hafa sams konar hlutverk í töluðu máli eins og bara og hérna nefnd orðræðuagnir eða hikorð eins og trúlega flestir þekkja þau. Eins og Helgi bendir á er orðið sko tíðheyrt en sjaldséð og dæmin sem hann tekur úr ritmálinu virðast öll vera komin úr barnabókmenntum. Það eru orð að sönnu að sko hefur löngum verið álitið hálfgert kvikindisorð, eins og Helgi vitnar til orða Jóns Ólafssonar á 18. öld og Sigfúsar Blöndal á 20. öld. Það þykir ekki fallegt að nota orðið hvort heldur er í töluðu eða rituðu máli. Orðið heyrist oft þegar talað er við ungabörn eða börn sem eru að byrja að tala og skilja það sem sagt er við þau. Hver kannast ekki við að segja ‘sko hvað þú ert dugleg’ eða einfaldlega ‘sko’ þegar búið er að setja saman kubba í merkingunni ‘sjáðu nú er þetta tilbúið’ þegar talað er við litlu hetjuna sem keppist við að feta ný spor í umhverfinu.

Ég má til með, áður en ég fjalla meira um grein Helga, að segja frá verkefni sem ég vann haustið 2002 í námskeiðinu Hagnýt málvísindi II ásamt félögum mínum Ágústu, Hrafnhildi og Kristínu. Við fengum það hlutverk að gera svolitla athugun á notkun orðræðuagnarinnar sko í töluðu máli. Við skoðuðum skráða samtalsbúta frá ÍSTAL sem við fengum hjá Þórunni Blöndal kennara námskeiðsins. Athugun okkar leiddi í ljós að notkun orðsins er ekki bundin við kyn eða aldur heldur er hún frekar persónubundin, þ.e. það er mismunandi eftir einstaklingum hvort þeir noti orðið og hversu mikið. Við rákumst reyndar ekki á neitt samtal þar sem orðið kom aldrei fyrir en það var greininlegur munur á notkun og um suma einstaklinga mátti segja að þeir notuðu orðið mikið. Það sem okkur þótti merkilegt var að það virtist sem noktun orðsins hefði margþættan tilgang í orðræðunni. Við sáum þetta þegar við fórum að skoða stöðu þess í setningum t.a.m. þagnir í orðræðum, hik, frammígrip, hratt tal ofl. Við veltum því einnig mikið fyrir okkur hvaða orðflokki orðið tilheyrði en tókst ekki að hengja það við neinn ákveðinn. Tilgangurinn með notkun orðsins í orðræðunni var margþættur. Við sáum dæmi þess að orðið var notað sem hikorð á meðan notandinn hugsaði sig um. Það kom einnig fyrir að orðið væri aftast í orðræðu til að leggja sérstaka áherslu á það sem sagt var. Orðinu var skotið inn þegar ræðumaður vildi fá orðið aftur sem hafði verið tekið af honum og halda áfram með ræðu sína. Einnig kom fyrir að orðið væri notað í miðri ræðu þegar sá sem talaði vildi breyta orðalagi eða því sem hann vildi segja. Dæmin voru fleiri en ég læt þessi nægja til að sýna að sko hefur greinilega margþættan tilgang í orðræðunni og þá ekki endilega sérstaka merkingu í því sem sagt er.

Helgi reynir að skýra merkingu orðsins og vísar í orðabók Sigfúsar Blöndal (1920-1924) þar sem sko er í senn skýrt sem upphrópun eða boðháttur af sögninni að skoða og er t.d. notað í setningum eins og ‘sko manninn, se det menneske, sko þarna er hann, se, der er han!’

Óljóst er hversu gamalt orðið sko er. Helgi segir það orð sem endaði á –o hafi verið næstum einstakt í málinu fram undir 1600. Hann útskýrir að það sé við hljóðbreytinguna vá>vó>vo að svo >so, tvo, þvo koma til sögunnar. Líklegast er sko yngra en þessi hljóðbreyting en það er þó staðfest eftir heimildum að orðið er til á 18. öld.

Helgi nefnir nokkur dæmi um notkun orðsins úr rituðu máli bæði gömul og ný. Það elsta er frá úr kvæði Benedikts Gröndal (1762-1825); ‘Nei, sko þá litlu lipurtá’. Nokkur dæmi nefnir hann úr barnabókum eftir Guðrúnu Helgadóttur og Sigrúnu Eldjárn frá 20. öld. Öll dæmin eiga það sameiginlegt að þau eru bein ræða í textanum sem skrifaður er og því má segja að höfundar séu að reyna að líkja eftir töluðu máli í bókmenntum sínum.

Nokkur dæmi nefnir Helgi úr töluðu máli:

•Ég er sko alveg hissa.
•Þú hefur sko ekki mikinn tíma.
•Hann var sko ekki billegur.

Merkingin er ýmist sjáðu, taktu eftir, líttu á eða eitthvað í þá áttina en stundum reyndar, aldeilis, sannarlega, svei mér þá. Sko virðist því stundum vera notað til ábendingar og stundum til áherslu.

Frá 18. öld hefur verið litið á sko sem stýfðan boðhátt notaðan sem upphrópun af sögninni skoða. Slíkir boðhættir eru til í fleiri tungumálum. Helgi segir þetta vel geta staðist í íslensku þar sem merkingin sé oftast sjáðu, taktu eftir líttu á o.s.frv. Sko stýrir einnig falli eins og áhrifssögn og myndun orðsins er alþekkt. En Helgi bendir á að merkingin er ekki alltaf þessi heldur stundum ‘reyndar, aldeilis, sannarlega og svei mér þá’.

Helgi kemst ekki að eiginlegri niðurstöðu í grein sinni en bendir á að margir noti sko eingöngu í þeirri merkingu sem kemur þar fram og þá í orðinu einu og sér eða fremst í setningu.

Tilvalið er að fjalla um notkun orðræðuagna eins og orðsins sko í kennslu á miðstigi eða unglingastigi í grunnskóla þegar fjallað er um muninn á töluðu og rituðu máli. Það má hvetja unglinga til að hlusta á talað mál í kringum sig og taka eftir því hvernig fólk notar hikorð. Einnig er holt að hlusta á sjálfan sig tala og veita því athygli hvort maður noti mikið hikorð. Ég vann verkefni með unglingum í 8. bekk í æfingakennslu síðastliðið haust þar sem þau fengu að hlusta á upptöku af frásögn unglings sem notaði hikorð nokkuð en sagði annars skemmtilega frá. Krökkunum fannst fráleitt að þau sjálf töluðu svona en þegar á reyndi gerðu þau það. Umræður spunnust um talað mál í sjónvarpi og þau áttuðu sig á að þar er á ferðinni undirbúið talað mál. Við fjölluðum því heilmikið og unnum með undirbúna og óundirbúna frásögn og það hvernig við reynum að forðast hikorð þegar við fáum tíma til að undirbúa okkur og hvernig við notum hikorðin í daglegu spjalli okkar við annað fólk.